Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Skyldi ætla að neyðarmóttaka héldi trúnað

Mynd: RÚV / RÚV
Páley Borgþórsdóttir, lögreglustjóri í Vestmannaeyjum, veltir því upp hvort starfsmenn neyðarmóttöku fyrir kynferðisbrot hafi ekki virt trúnað með því að veita upplýsingar um fjölda þeirra sem leituðu til þeirra vegna kynferðisbrota í Vestmannaeyjum um helgina.

Páley ræddi þetta í Speglinum í kvöld þar sem hún sagði meðal annars hún skildi ætla að menn héldu trúnað um þessi mál sem heilbrigðisstarfsmenn.

Lögreglan í Vestmannaeyjum birti í dag upplýsingar um tvö kynferðisbrot sem komu til kasta lögreglunnar meðan á Þjóðhátíð stóð. „Kannski hefði mátt segja að við hefðum ekki gert það í dag nema út af því að neyðarmóttakan fór að svara fjölmiðlum um þessi mál. Staðan á einu málinu er í raun og veru þannig að ég hefði kosið í ljósi rannsóknarhagsmuna að tilkynna ekki strax um það. En fyrst að neyðarmóttakan upplýsir um þessi mál, sem má líka benda á að maður skyldi ætla að menn héldu trúnað um sem heilbrigðisstarfsmenn, að þá í raun og veru var mér ekki stætt á öðru enda hefur síminn hringt hérna látlaust í morgun og enginn vinnufriður fyrir fjölmiðlaspurningum."

Páley segir að umræðan um þá ákvörðun að veita engar upplýsingar um kynferðisbrot um helgina hafi engu breytt um afstöðu sína. „Ég veit að þetta er rétt ákvörðun. Ég er alveg sannfærð um það. Hún er að hlífa þessu fólki sem stendur í því, ég sá það bara síðast um helgina." Hún segir að frá upphafi hafi staðið til að veita upplýsingar um kynferðisbrotamál þegar hagsmunir brotaþola og rannsóknarhagsmunir væru klárir. „Það er það sem við höfum haldið okkur við." Hún segir að enginn hafi viljað hlusta á að þetta stæði til eftir að umræðan hófst.

Engin alvarleg líkamsmeiðsl
„Það að hátíðin hafi farið vel fram tekur yfir hátíðina í það heila," segir hún aðspurð um á hverju það mat lögreglu byggir að Þjóðhátíð hafi farið vel fram. „Hér eru fimmtán þúsund manns. Hér varð enginn fyrir einhverju alvarlegu líkamstjóni. Við vorum ekki með með nein höfuðkúpubrot eða slíkar stórkostlega alvarlegar líkamsárásir. Vopnamál voru engin og hér var tiltölulega mikill friður yfir fólkið. Vissulega komu upp þessi tvö kynferðisbrotamál. Ég ætla ekki að gera lítið úr því. Það er grafalvarlegt og alvarlegar afleiðingar sem þau valda en engu að síður í svona stórum hópi fólks var tiltölulega mikill friður yfir fólki og hátíðin fór, miðað við fyrri hátíðir, nokkuð vel fram þrátt fyrir þessi ömurlegu kynferðisbrot."

Viðtalið í heild sinni má hlýða á hér að ofan.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
alma's picture
Alma Ómarsdóttir
Fréttastofa RÚV