Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Skyggnst að tjaldabaki Völuspár

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Skyggnst að tjaldabaki Völuspár

08.11.2019 - 09:47

Höfundar

Gísli Sigurðsson sérfræðingur í þjóðfræði skyggnist að tjaldabaki Völuspár í nýjum þáttum á Rás 1. Þar reynir hann að komast nær skilningi á heimsmynd kvæðsins, myndmálinu, flutningi í lifandi hefð síns tíma og þeim hugmyndum sem kvæðið kveikti hjá áheyrendum á 13. öld og til okkar daga.

Í tengslum við flutning Brynhildar Guðjónsdóttur á Völuspá í hljóðmynd Péturs Grétarssonar á Rás1 fjallar Gísli Sigurðsson um kvæðið í fjórum þáttum; segja frá heimsmynd þess fólks að fornu sem stóð á jörðinni undir himni úr haus Ýmis jötuns, gera grein fyrir mótun hugmynda um ragnarök meðal þeirra sem bjuggu hér við hveralandslag og eldgos undir myndum og lestri á lýsingum Biblíunnar á heimsenda; og velta upp vandamálum sem tengjast munnlegri varðveislu og flutningi kvæðis á borð við Völuspá, sambandi völvunnar við Óðin og hvaða erindi völvan eigi við samtíma sinn – og okkar – með boðskap sem speglar örlög mannkynsins í sögu og ragnarökum goðanna.

Þættirnir verða fluttir vikulega á Rás 1 í nóvember. Í þeim fyrsta, sem fluttur verður 9.  nóvember, er fjallað um heimsmynd Völuspár á þeim tíma þegar menn voru á jörðinni og goðin á himni þar sem hreyfingar Sólar, Mána og reikistjarna voru túlkaðar með goðsögum – áður en vísindin sögðu jörðina snúast í kringum sólina.

Í öðrum þætti er talað um orðfæri Völuspár um endalok heimsins og hvernig það gæti hafa mótast af reynslu fólks af eldgosum hér á landi í bland við hugmyndir trúarlegra texta og myndlist sem hingað barst frá meginlandinu.

Í þeim þriðja er komið að útisetu völvunnar og leiðslubókmenntum miðalda þar sem mannleg vera kemst í samband við einhvern að handan, sem veitir henni sýn í annan heim eða til framtíðar – eins og Óðinn gerir þegar hann opnar völvunni spásýn til ragnaraka.

Í síðasta þætti gerir Gísli grein grein fyrir þeirri stóru myndhverfingu sem Völuspá byggist á með því að spegla líf manna í sögu goðanna – sem er hið undirliggjandi hlutverk allra goðsagna og beinist að kjarna þess erindis sem kvæðið á við samtíð sína, hvort sem er á miðöldum eða vorum dögum.