Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Skutull fannst í landnámsskála í Stöðvarfirði

14.06.2019 - 12:59
Mynd: Atli Rúnarsson / Téður skutull
Skutull fannst við fornleifauppgröft við skálann á Stöð í Stöðvarfirði í gær. Þar er eru tveir skálar og verið er að grafa í þeim yngri, sem er frá landnámsöld. Sá eldri sem er undir landnámsskálanum, er mögulega útstöð frá því fyrir eiginlegt landnám.

Dr. Bjarni F. Einarsson fornleifafræðingur var hæstánægður með fundinn sem hann segir fágætan. Gripurinn er bersýnilega skutull, því krókur gengur út úr spjótinu.

„Hann er 20 cm langur eða þar um bil.

Og hefur þetta verið notað til að skutla smáhveli?

Nákvæmlega, seli og smáhveli, fyrst og fremst. Svo eigum við eftir að láta röntgengreina þennan grip, því að ég hef grun um að svokallaður agnúi sé á skutlinum. Það er krókurinn sem að vaðurinn eða línan er fest í til að missa ekki skutulinn á haf út,“ segir Bjarni.

Ragnhildur Thorlacius ræddi við Bjarna um skutulinn og uppgröftinn á Stöð í Samfélaginu á Rás 1 í dag.