Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Skuggi í mál vegna útleigu til ferðamanna

18.08.2015 - 12:25
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV - RÚV Anton Brink
Húsfélagið í Skugga einum, er í elsta hluta háhýsahverfisins sem kennt er við Skugga og samanstendur af sex fjölbýlishúsum sem byggð voru á árunum 2002 til 2005. Meirihluti íbúa í húsfélaginu ætlar að höfða mál gegn eigendum þriggja íbúða sem leigðar eru ferðamönnum.

Geir Gunnlaugsson, formaður húsfélagsins, telur að þarna sé rekin atvinnustarfsemi. „Við viljum fá úrskurð dómstóla um það hvernig túlka beri ákvæði fjöleignahúsalaganna varðandi þegar hafin er gististarfsemi í húsunum, hvort að það sé ekki réttur skilningur okkar á fjöleignahúsalögunum að það þurfi að óska eftir heimild annara eigenda til svona breytinga,“ segir Geir.  

Geir segir að meirihluti eigenda hafi talið sig kaupa íbúðir í húsi þar sem yrðu íbúar með fasta búsetu, en ekki þar sem yrði rekin gistiaðstaða þar sem nýjir gestir, allt frá tveimur upp í átta, kæmu til að mynda tvisvar í viku.  

„Þetta er bara orðið allt annað umhverfi,“ segir Geir. „Þegar svona starfssemi hefst, hefst umferð fólks sem að við þekkjum ekki neitt. Það er fólk að koma, það kemur seint á kvöldin, það fer snemma á morgnana, þessi umgangur veldur truflunum hjá öðrum íbúum, það eru kannski fjórir eða sex að fara í sturtu, fara út með ferðatöskur að morgni til klukkan fimm, þessir gestir þurfa oft að leita mikilla upplýsinga hjá öðrum, þetta er svona stöðugt kvabb. Svo eru ákveðnar reglur um umgengni í fjöleignahúsum, þetta fólk gerir sér ekki alltaf grein fyrir því.“

Allt saman valdi þetta íbúum í húsunum ónæði.

ragnhildurth's picture
Ragnhildur Thorlacius
Fréttastofa RÚV