Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

„Skrýtið að fá að heita Karl en ekki Kona“

14.06.2019 - 14:00
Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd
Elín Eddudóttir, sem synjað var beiðni sinni um að fá að bera nafnið Kona, unir ekki úrskurði mannanafnanefndar. Hún segir úrskurðinn mannréttindabrot og hefur sent umboðsmanni Alþingis bréf þess efnis að hún hyggist kæra.

Elín kvaðst oft hafa velt því fyrir sér að taka upp annað eiginnafn. Árið 2014 las hún viðtal við Kristbjörgu Kristjánsdóttur á Vísi sem sagðist þá hafa verið neitað tvisvar sinnum um að fá að bera nafnið Kona. Hún hugsaði þá með sér að nafnið væri flott og að hana langaði að heita Kona og sótti hún því um leyfi fyrir nafninu til Mannanafnanefndar. Í maí fékk hún synjun við beiðni sinni. 

Óskaði eftir frekari skýringum á úrskurði nefndarinnar

Í úrskurði nefndarinnar, sem Elín fékk sendan með synjuninni, segir að nafnið Kona brjóti í bága við 5. grein laga númer 45/1996. Samkvæmt þeirri lagagrein skal eiginnafn geta tekið íslenska eignarfallsendingu og hafa unnið sér hefð í íslensku máli. Það má ekki brjóta í bága við íslenskt málkerfi og skal vera ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls. Þá má nafnið ekki vera þeim sem ber það til ama. 

Orðið kona er samnafn og notað um kvenmann á ákveðnum aldri, segir í úrskurðinum. Ekkert ákvæði í mannanafnalögum banni þetta berum orðum og nokkur orð í þessum merkingarflokki sem tákni manneskju séu á mannanafnaskrá og í þjóðskrá svo sem Karl, Sveinn og Drengur. Þau eigi sér hins vegar langa sögu í tungumálinu og hafi þannig áunnið sér hefð sem eiginnöfn. Orðin maður, piltur, strákur, karlmaður, kvenmaður, kona, kerling, mær, stúlka og stelpa hafi aftur á móti ekki verið notuð sem eiginnöfn og verði að teljast að nöfn af því tagi séu ekki í samræmi við þær reglur sem unnið hafi sér hefð íslensku máli og brjóti gegn íslensku málkerfi, segir í úrskurðinum, sem Elín óskaði eftir frekari skýringum á eins og áður sagði.

Stenst reglur ritaðs máls en strandar á hefðinni

Í nýju svari nefndarinnar við óskum Elínar um frekari skýringar segir að brjóti nafn í bága við eitt skilyrðanna verði að hafna því en ekki sé talið nauðsynlegt að tilgreina sérstaklega fyrir hvert og eitt skilyrði hvort því sé fullnægt eða ekki. Í máli Elínar hafi nefndin til að mynda ekki tekið sérstaka afstöðu til þess hvort eiginnafnið Kona gæti orðið nafnbera til ama. Þá telji nefndin að nafnið Kona uppfylli skilyrðið um að nafn skuli geta tekið eignarfallsendingu og hún telur einnig að nafnið sé ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls. 

Af svarinu að dæma telur nefndin að nafnið standist hins vegar ekki reglur íslensks málkerfis hvað hefð varðar. Þegar vafasamt er hvort vel fari á því að draga nafn af tilteknum samnöfnum og ekki er hefð fyrir því að svo sé gert telur mannanafnanefnd að nafnið brjóti í bága við íslenskt málkerfi. Þetta eigi meðal annars við um samnöfn sem vísi almennt til fólks eða til fólks af ákveðnu kyni og/eða aldri eins og maður, kona, stelpa, strákur, stúlka eða piltur

Þá segir í svarinu að sú staðreynd að til séu karlmannsnöfnin Karl og Sveinn og kvenmannsnöfnin Karla og Sveina hafi ekki áhrif á niðurstöðuna því þau nöfn hafi áunnið sér hefð í íslensku máli. 

Kærir úrskurðinn

Elín hefur svarað bréfi nefndarinnar og segist hún þar hafa lesið svarið fimm sinnum og ekki skilið það öðruvísi en svo að nafnið uppfylli öll skilyrðin en að nefndin telji einfaldlega að ekki eigi að leyfa það „út af dálitlu.“ Hún líti svo á að beiðni sinni hafi verið hafnað án rökstuðnings. 

„Það er skrýtið að fá að heita Karl en ekki Kona sama hver hefðin er. Ég sé ekki að Kona, Stúlka eða Hrund séu eitthvað ómerkilegri en Karl, Drengur og Sveinn, “ segir í svari Elínar. 

Hún segist líta á synjuninna sem mannréttindabrot og hyggst fara með málið lengra. Elín hefur sent umboðsmanni Alþingis póst þar sem hún lýsir því yfir að hún vilji kæra úrskurðinn. 

solveigk's picture
Sólveig Klara Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV