Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Skringileg nýbylgja

Mynd með færslu
 Mynd: Album Artwork - Fölir vangar

Skringileg nýbylgja

30.03.2020 - 12:44

Höfundar

Fölir vangar er fyrsta breiðskífa Jóns Þórs Ólafssonar sem er eldri en tvævetur í íslenska neðanjarðarrokksbransanum. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í gripinn sem jafnframt var plata vikunnar á Rás 2.

Jón Þór gaf út breiðskífu 2012, Sérðu mig í lit, fjögurra laga plötu árið 2016, Frúin í Hamborg, sem og lag og lag á undanförnum árum. Hann á þá feril bæði með Isidor og Lada Sport og hefur því verið virkur í neðanjarðar/indírokkssenu landsins þó að nafn hans sé kannski ekki á allra vörum.

Fölir vangar, sem er öll eftir Jón Þór, er tekin upp af Axel Árnasyni. Jón Þór og Axel unnu plötuna saman og spiluðu á flest hljóðfærin. Nokkrir vinir Jóns Þórs koma einnig við sögu á plötunni. Steingrímur Þórarinsson spilar á bassa, Hekla Magnúsdóttir syngur bakraddir og spilar á þeremín, Ásdís María Viðarsdóttir syngur bakraddir og Friðrik Sigurbjörn Friðriksson, gamall félagi Jóns Þórs úr Lödu Sport, spilar á bassa í lokalagi plötunnar.
Tónlistin er hefðbundið nýbylgjupopp/rokk mætti segja. Klingjandi gítar í anda Smiths og Belle and Sebastian.

Jón Þór kann ágætlega að setja saman svona lög, þó að flest séu þau í heldur ófrumlegu sniði og minni oft óþægilega á fyrri afrek annarra sveita. Takmörkuð rödd Jóns er þá ekki að bæta ástandið. Hún er hreinlega pirrandi á köflum. Hún er mjóróma og flöt og nánast ómelódísk með öllu. Slíkt getur auðvitað verið til tekna í einhverjum tilfellum, stundum er hægt að kalla svona stílbrigði (sbr. Biggi í Maus, Kevin Shields í MBV, Stephen Pastel) en í tilfelli Jóns Þórs þá nást þessi áhrif ekki, a.m.k. ekki í eyrum þess er skrifar.

Í ljósi þessa hroðadóms míns vil ég sérstaklega draga fram að Jón Þór er ágætis völundur þegar kemur að því að setja saman lög. Þó að frumlegur sé hann ekki er hann glúrinn í lausnum oft og stundum giska ævintýragjarn. Hann skellir blæstri og þeramíni óhikað á og lög eins og Höfuðkransar og Líkamar eru ágætis smíðar. Það síðarnefnda, sem minnir dálítið á Bagdad Brothers, er nýbylgjuslagari. Drífandi smíði og viðlagið vel heppnað. Töff. „Höfuðkransar“ er dramatískt, með tilkomumiklu gítarspili.

Að öðru leyti er ég ekki of hrifinn, eins og nærri má geta. Og það má.

Tengdar fréttir

Popptónlist

DGNÐR, elja og þolgæði

Popptónlist

Hatari heimtir alla