Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Skrifuðu undir samkomulag um kjaratölfræði

15.05.2019 - 13:08
Mynd með færslu
 Mynd: Forsætisráðuneytið
Fulltrúar ríkisins og heildarsamtaka á vinnumarkaði undirrituðu í dag samning um störf kjaratölfræðinefndar. Nefndin á að sjá til þess að áreiðanlegar upplýsingar verði aðgengilegar um laun og efnahag sem nýtast við undirbúning kjarasamninga.

Undirritunin fór fram á fimmtánda samráðsfundi stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins í dag. Kjarnatölfræðinefndin vinnur að gerð og hagnýtingu tölfræðigagna um laun og efnahag sem nota á við undirbúning kjarasamninga og eftirfylgni með þeim. Í fréttatilkynningu frá stjórnvöldum segir að nefndin eigi að stuðla að því að þeir sem standa að samkomulaginu hafi sameiginlegan skilning á eðli, eiginleikum og þróun þeirra hagtalna sem mestu varði við gerð kjarasamninga. Að samkomulaginu standa forsætisráðuneytið, félagsmálaráðuneytið, fjármála- og efnahagsráðuneytið, Alþýðusamband Íslands, Bandalag háskólamanna, BSRB, Kennarasamband Íslands, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samtök atvinnulífsins og Hagstofa Íslands.

Mynd með færslu
 Mynd: Forsætisráðuneytið
Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV