Skriðan hljóp fimmtíu metra frá fjallsrótum

22.08.2019 - 07:30
Mynd með færslu
 Mynd: Lögreglan á Suðurlandi - Facebook
Skriða sem féll Í Reynisfjöru á þriðjudag var um hundrað metrar á breidd og hljóp um fimmtíu metra frá rótum fjallsins út í sjó. Stærstu steinarnir í urðinni voru um þrír metrar í þvermál. Meðalþykkt skriðunnar er um fimm metrar og áætlað rúmmál hennar um 25 þúsund rúmmetrar. Mikil mildi þykir að enginn var á staðnum þegar skriðan féll.

Þetta kemur fram á vef Veðurstofunnar. Mbl.is greindi fyrst frá. 

Grjóthrun mánudagsins fyrirboði um stærri skriðu

Ekki er vitað hvað kom skriðunni af stað. Grjóthrun sem féll daginn áður hafi reynst vera fyrirboði stærri skriðu. Þá er þekkt að jarðhræringar eða mikil úrkoma valdi skriðuföllum.

Skriðuföll eru þekkt í Reynisfjalli. Á síðustu tíu árum hafa fallið þrjár skriður sem gátu talist ógn við ferðamenn, segir á vef Veðurstofunnar. Þá falla einnig staksteinar úr hlíðinni, með reglulegu millibili, sem geta valdið slysum. 

Aðstæður endurmetnar á föstudag

Á mánudag slösuðust karlmaður og barn þegar skriða féll í fjöruna. Lögreglan á Suðurlandi lokaði þá austasta hluta fjörunnar. Áfram má búast við að það hrynji úr Reynisfjalli næstu daga. Áberandi sprungur sjáist í fjallinu sem fylgst verður með. Erfitt er að leggja mat á hvar eða hvenær næsta hrun verður. 

Almannavarnir ætla að loka aðgengi að þeim hluta fjörunnar sem er austan við Hálsanefshelli fram á föstudag. Þá verða aðstæður kannaðar að nýju og staðan endurmetin. Landeigendur eiga fund með Vegagerðinni á föstudag. Þá verður tekin ákvörðun um næstu skref og hvort ráðist verður í varanlegar aðgerðir.

Erfitt að halda svæðinu lokuðu

Reynisfjara er með fjölförnustu ferðamannastöðum á Íslandi. Þangað koma ferðamenn bæði í skipulögðum hópferðum og á eigin vegum. Þeir virtust virða lokunina á þriðjudag en lögregla þurfti í gær að reka úr fjörunni um þrjátíu ferðamenn sem voru á miklu hættusvæði. Sigurður Sigurbjörnsson, varðstjóri hjá Lögreglunni á Suðurlandi, sagði að erfitt væri að halda svæðinu lokuðu. Lögregluborðar réðu illa við Atlantshafið. 

Sérfræðingur hjá Veðurstofunni segir að ekki hafi fengist fé til að fylgjast með hrunhættu við Reynisfjöru eða á öðrum ferðamannastöðum víða um land. 

 

Katrín Ásmundsdóttir
vefritstjórn
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi