Skráðum kynferðisbrotum fjölgaði um tæp 50%

Mynd með færslu
 Mynd:
Nær helmingi fleiri kynferðisbrot hafa verið skráð á árinu en voru skráð að meðaltali á sama tímabili síðustu þrjú ár. Tilvikum þar sem lögreglumenn voru beittir ofbeldi fjölgaði það sem af er ári miðað við meðaltal sama tímabils síðustu þrjú ár. Þá hafa fleiri verið grunaðir um akstur undir áhrifum á tímabilinu.

Tilkynningum um hegningarlagabrot hefur fækkað um fimm prósent ef miðað er við meðaltal sama tímabils á síðustu þremur árum. 725 hegningarlagabrot voru skráð hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í mánuðinum. Þetta segir í mánaðarskýrslu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Skráðum kynferðisbrotum fjölgaði um tæp fimmtíu prósent

34 kynferðisbrot voru skráð í júlí, þar af áttu 16 sér stað í mánuðinum. Í júní voru skráð 45 brot. Þar af voru 37 framin í júnímánuði. Í maí voru skráð 66 kynferðisbrot þar af 45 sem áttu sér stað í mánuðinum.

Skráningum kynferðisbrota um 48 prósent fleiri það sem af er ári en voru skráð að meðaltali á sama tímabili síðustu þrjú ár.  Á árinu hafa 286 brot verið skráð en voru 242 í fyrra. 

Ofbeldi á lögreglumönnum eykst

Átta tilvik um ofbeldi á lögreglumönnum voru skráð í júlí. 44 tilvik hafa verið skráð á árinu. Ofbeldisbrotum gegn lögreglumönnum hefur fjölgað um rúm þrjátíu prósent það sem af er ári sé miðað við sama tímabil síðustu þrjú ár á undan. Hótunum um ofbeldi á lögreglumanni hefur fjölgað um sjö prósent á árinu, miðað við sama tímabil. 

Fleiri grunaðir um akstur undir áhrifum

Skráð voru 173 brot þar sem ökumaður var grunaður um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna í júlí og 108 um ölvunarakstur. Um 42 prósent fleiri brot voru skráð það sem af er ári vegna gruns um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna og um 19 prósent fleiri vegna gruns um ölvunarakstur en voru skráð að meðaltali á sama tímabili síðastliðin þrjú ár á undan.

Ofbeldis- og fíkniefnabrotum fækkaði

Fíkniefnabrotum fækkaði um tíu prósent það sem af er ári miðað við sama tímabil síðustu þrjú ár. 118 brot voru skráð í júlí og 155 í mánuðinum á undan. Engin stórfelld fíkniefnabrot voru skráð í mánuðinum á höfuðborgarsvæðinu.

Tilkynningum um ofbeldisbrot fækkaði um tíu prósent það sem af er ári miðað við sama tímabil síðustu þrjú árin. Tilkynnt var um 96 ofbeldisbrot í júlí, þar af 75 minni háttar líkamsárásir, 18 meiri háttar eða stórfelldar líkamsárásir og þrjú önnur ofbeldisbrot. 

Fleiri farsímum stolið í júlí

Þá fækkaði tilkynningum um þjófnað um átta prósent það sem af er ári ef miðað er við sama tímabil síðustu þrjú ár. 306 tilkynningar bárust í mánuðinum og fækkaði þeim milli mánaða.

Tilkynningum um þjófnað á farsímum fjölgaði í júlí og var tilkynnt um 32 stolna farsíma í mánuðinum. Ekki hefur verið tilkynnt um jafn marga farsímaþjófnaði á mánuði á árinu. 

Tilkynningum um innbrot fækkaði um sjö prósent það sem af er ári miðað við síðustu þrjú ár. Alls bárust 68 tilkynningar um innbrot í mánuðinum, þar af 34 í heimahúsi. 

Katrín Ásmundsdóttir
vefritstjórn
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi