Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Skortur á íbúðarhúsnæði í öllum landshlutum

27.11.2019 - 08:05
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Skortur er á íbúðarhúsnæði í öllum landshlutum og er að mati sveitarfélaga helst þörf á minna og hagkvæmara húsnæði til leigu eða kaupa. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu um stöðu og þróun húsnæðismála sem kynnt verður á húsnæðisþingi félagsmálaráðuneytisins og Íbúðalánasjóðs í dag.

Þar er í fyrsta sinn birt heildstætt mat á húsnæðisþörf eftir landsvæðum, félagslegri stöðu og tegundum húsnæðis. Í skýrslunni kemur fram að sveitarfélög áætli að í byrjun næsta árs verði þörf fyrir um 3.300 fyrir landið allt. Þetta sé varlega áætlað því eftirspurn og aðstæður á húsnæðismarkaði geti breyst tiltölulega hratt. Ekki liggi þó fyrir upplýsingar frá öllum sveitarfélögum. Í skýrslunni er talið að íbúðaþörf á landinu öllu geti verið á bilinu 3.900 til 6.600 íbúðir. 

Á höfuðborgarsvæðinu er helst þörf fyrir aukið framboð af hagkvæmu húsnæði bæði til sölu eða leigu, og þá sérstaklega fyrir þá sem eru að taka sín fyrstu skref á húsnæðismarkaði og þeim hópi sem fellur innan viðmiða almenna íbúðakerfisins. 

Samkvæmt húsnæðisáætlunum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og þeim upplýsingum sem Íbúðalánasjóður hefur er óuppfyllt íbúðaþörf á höfuðborgarsvæðinu um 2.200 til 2.400 íbúðir.  Hátt í helmingur er vegna einstaklinga eða fjölskyldna sem ekki eru færar um að sjá sér og sínum fyrir húsnæði vegna þungrar framfærslubyrði, lágra tekna eða félagslegra aðstæðna.

Undanfarin sextíu ár hefur hið hefðbundna fjölskylduform farið minnkandi og þeim fjölgar sem búa einir. 

Sveitarfélög landsins eiga hátt í 5.500 leiguíbúðir, eða um fjögur prósent af heildarfjölda íbúða á öllu landinu. Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu eiga flestar íbúðirnar eða nærri 3.500, næstflestar eru í eigu sveitarfélaga á Norðurlandi sem eiga 715 íbúðir en sveitarfélög í öðrum landshlutum eiga á bilinu 158 til 335 íbúðir. 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV