Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Skörp dýfa hjá Icelandair í Kauphöllinni í morgun

16.03.2020 - 10:18
Mynd með færslu
 Mynd: Aero Icarus - Flickr
Virði hlutabréfa í Icelandair tók skarpa dýfu eftir að opnað var fyrir viðskipti í Kauphöllinni í morgun. Á fyrsta klukkutímanum lækkaði virði bréfa um tæp 14%. Úrvalsvísitalan hefur lækkað um rúm fimm prósentustig í morgun.

Verð bréfa í Icelandair stendur í 3,60 krónum á hlut, en hafa ber í huga að lítil viðskipti hafa verið enn sem komið er í dag. Félagið tilkynnti í gærkvöld að það þurfi að draga úr flugframboði um allt að þrjátíu prósent vegna COVID-19 faraldursins.

Önnur félög sem hafa tekið dýfu á hlutabréfamarkaði í morgun eru til að mynda Icelandic Seafood International, sem hefur lækkað um rúmlega níu prósentustig og Skeljungur lækkaði um tíu prósentustig.

Lækkun hlutabréfa í Kauphöllinni helst í hendur við það sem hefur gerst í Evrópu í morgun, þar sem hlutabréfavísitölur lækkuðu töluvert í fyrstu viðskiptum dagsins.