Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Skora á stjórnvöld að láta loka spilakössum

21.03.2020 - 18:49
Mynd með færslu
 Mynd: Kveikur - RÚV
Samtök áhugafólks um spilafíkn óska eftir aðstoð landlæknis, sóttvarnalæknis og Almannavarna við að láta loka spilasölum og spilakössum og koma þannig í veg fyrir möguleg smit á COVID-19. Þetta kemur fram í tilkynningu sem samtökum sendu fjölmiðlum.

Samtökin sendu áskorun til rekstraraðila spilakassa, rektors Háskóla Íslands, forstjóra Happdrættis Háskóla Íslands og til formanns og framkvæmdastjóra Rauða krossins á Íslandi, formann Landsbjargar og SÁÁ 13. mars, að því er segir í tilkynningunni. Það hafi ekki borið árangur. Þá segir að samtökin hafi óskað eftir afskiptum dómsmálaráðherra og til Alþjóðahreyfingar Rauða krossins um að grípa fram fyrir hendur Rauða krossins á Íslandi en að svör hafi ekki borist. 

Vestmannaeyjabær tilkynnti í dag að öllum spilakössum og spilasölum yrði lokað. „Hér er ekki um að ræða lífsnauðsynlega starfsemi og nokkrar líkur á að hvorki fyrirmælum um hreinlæti né fjarlægð milli spilara sé framfylgt. Auðvitað ættu þessir leyfishafar að bregðast við af fyrra bragði og sýna samfélagslega og siðferðislega ábyrgð en þau virðast ekki ætla að gera það, þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir,“ segir í tilkynningu Samtaka áhugafólks um spilafíkn. Því séð biðlað til landlæknis, sóttvarnalæknis og yfirmanns Almannavarna að láta loka öllum spilakössum og spilasölum tafarlaust á meðan hættuástand gengur yfir.