Skora á stjórnvöld að flýta snjóflóðavörnum

07.05.2019 - 22:00
Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Hópur sérfræðinga og sveitarstjórnarfólks hefur sent stjórnvöldum áskorun um að auka fjárheimildir úr Ofanflóðasjóði og ljúka uppbyggingu snjóflóðavarna. Eftir því sem verkið tefst eykst hættan á slysum sem hefði verið hægt að koma í veg fyrir, segir ofanflóðasérfræðingur.

Óviðunandi hversu lengi framkvæmdir dragast

Þrettán skrifa undir undir áskorunina, meðal annarra sérfræðingar í ofanflóðamálum og forsvarsmenn sveitarfélaga. „Okkur finnst tímabært núna að stjórnvöld setji sér markmið um hvenær þeir áætla að ljúka þessum vörnum á þessum hættulegustu svæðum. Og viljum minna á það að ef það veðrur ekki gefið í núna þá stefnir í að þessum framkvæmdum ljúki ekki fyrr en eftir tuttugu, þrjátíu ár, sem okkur finnst óviðunandi,“ segir Tómas Jóhannesson, ofanflóðasérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands.

Framkvæmdir fjármagnaðar með Ofanflóðasjóði

Eftir mannskæð snjóflóð í Súðavík og á Flateyri árið 1995 mörkuðu stjórnvöld stefnu um uppbyggingu ofanflóðavarna víða á landinu sem eru að mestu fjármögnuð úr Ofanflóðasjóði með gjaldi á allar brunatryggðar húseignir í landinu. Upphaflega stóð til að varnirnar yrðu komnar upp fyrir 2010 en í áskoruninni segir að uppbyggingin hafi gengið hægar en áætlað var vegna stjórnvaldsákvarðana. Fyrst var markmiðinu frestað til 2020 og nú standi til að fresta því frekar. Til þess að hægt sé að ljúka uppbyggingu ofanflóðavarna fyrir árið 2030 þarf að auka fjárstreymi til framkvæmda úr Ofanflóðasjóði. 

Stefnir í framkvæmdir taki hálfa öld

Í áskoruninni segir að upphaflega hafi verið talið að kostnaðurinn yrði 18-37 milljarðar, nú þegar hafi 21 milljarði verið varið í verkefnið,  verkefni fyrir 2-3 milljarða séu í vinnslu og áætlaður kostnaður til að ljúka uppbyggingu ofanflóðavarna sé um 19 milljarðar. Þótt að í sjóðnum séu 16 milljarðar þá stefnir í að markmiðinu að verja hættulegustu svæðin verði ekki náð fyrr en undir miðja öldina miðað við fjárheimildir til verkefnanna undanfarin ár. 
„Það hefur orðið dráttur á nokkrum verkefnum á undanförnum árum. Vegna þess að framkvæmdaféð hefur ekki verið nægt,“ segir Tómas.

Ljúka megi framkvæmdum á næstu 10 árum

Hluti seinkunarinnar á sér eðlilegar skýringar enda framkvæmdirnar oft flóknar en Tómas telur gerlegt að með auknum fjárveitingum úr sjóðnum megi ljúka framkvæmdum á næstu tíu árum. Í áskoruninni segir að frestunin bjóði hættunni heim á mannskæðum slysum sem er erfitt að sætta sig við þegar sjóðurinn hefur burði til þess að ljúka uppbyggingunni miklu fyrr. „Ef ár og áratugir líða án þess að varnirnar séu reistar þá vex hætta á það verði slys sem við hefðum getað komið í veg fyrir. Og það er ekki það sem við viljum láta henda okkur,“ segir Tómas. „Ekki láta tímann líða ár eftir ár eftir ár með þessum litlu fjárheimildum og láta peningana safnast í sjóðnum engum til gagns,“ segir Tómas. 

Þrettán skrifa undir áskorunina

Undir áskorunina skrifa auk Tómasar: Aðalheiður Borgþórsdóttir, bæjarstjóri Seyðisfjarðarkaupstaðar, Aðalheiður Hafsteinsdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, Gunnar Birgisson, bæjarstjóri Fjallabyggðar, Guðmundur Gunnarsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, Halldór Halldórsson, fyrrverandi bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar og fulltrúi í Ofanflóðanefnd, Harpa Grímsdóttir, hópstjóri ofanflóðavöktunar hjá Veðurstofu Íslands, Karl Óttar Pétursson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, Kristín Martha Hákonardóttir, Kristín Martha Hákonardóttir, verkfræðingur og ofanflóðasérfræðingur áVerkísverkfræðistofu, Magni Hreinn Jónsson, verkefnisstjóri ofanflóðahættumats á Veðurstofu Íslands, Magnús Jónsson, fyrrv. Veðurstofustjóri, Magnús Jóhannesson, fyrrv. ráðuneytisstjóri og fyrrv. formaður Ofanflóðanefndar og Trausti Jónsson, veðurfræðingur og fyrrv.sviðsstjóri á Veðurstofu Íslands. 

hallao's picture
Halla Ólafsdóttir
dagskrárgerðarmaður
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi