Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Skora á Guðna að staðfesta orkupakkann ekki

28.08.2019 - 18:41
Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd
Fulltrúar samtakanna Orkunnar okkar gengu í dag á fund Guðna Th. Jóhannessonar forseta. Þeir afhentu forsetanum skýrslu samtakanna og umsagnir um þriðja orkupakkann. Jafnframt skoruðu samtökin á forsetann að staðfesta ekki upptöku þriðja orkupakkans í EES-samninginn nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu eða að fenginni undanþágu frá innleiðingu hans.

Forseti tók á móti fulltrúum Orkunnar okkar í morgun. Þar kynntu fulltrúarnir honum sjónarmið samtakanna um þriðja orkupakkann og framtíðarskipan orkumála á Íslandi. 

Í bréfi sem samtökin afhentu forsetanum segir að hann sé meðal annars kjörinn til að vaka yfir því að landinu sé ætíð lýðræðislega stjórnað og að stjórnvöld virði stjórnarskrána, þá sæki hann umboð sitt til þjóðarinnar og geti samkvæmt stjórnarskrá gripið til úrræða ef hann telur tilefni til. 

Orkan okkar skorar því á Guðna að staðfesta ekki upptöku þriðja orkupakkans í EES-samninginn nema annað tveggja skilyrða sé uppfyllt. Annað hvort að sameiginlega EES-nefndin veiti Íslandi undanþágu frá innleiðingu þriðja orkupakkans hérlendis eða að þjóðin hafi samþykkt innleiðingu hans í þjóðaratkvæðagreiðslu.