Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Skólum og Disneylandi lokað og hátíðarhöldum aflýst

26.01.2020 - 05:33
A girl wears a mask inside a bus in Hong Kong, Saturday, Jan. 25, 2020. China's most festive holiday began in the shadow of a worrying new virus Saturday as the death toll surpassed 40, an unprecedented lockdown kept 36 million people from traveling and authorities canceled a host of Lunar New Year events. (AP Photo/Achmad Ibrahim)
 Mynd: AP
Stjórnendur Disneyland-skemmtigarðsins í Hong Kong tilkynntu í morgun að garðurinn yrði lokaður í dag og ekki opnaður aftur fyrr en tryggt þykir að gestum og starfsfólki garðsins standi ekki lengur bráð ógn af mannskæðum veirufaraldrinum sem nú geisar í Kína og skotið hefur upp kollinum í Hong Kong. Yfirvöld í sjálfstjórnarhéraðinu lýstu í gær yfir neyðarástandi vegna kórónaveirufaraldursins, sem veldur bráðri, alvarlegri lungnabólgu og hefur þegar orðið 56 manns að bana.

Fimm tilfelli í Hong Kong

Staðfest er að um 2.000 manns hafi þegar smitast af veirunni, langflest í Hubei-héraði á meginlandi Kína, þar sem 52 af 56 dauðsföllum hafa orðið. Fimm hafa greinst með veiruna í Hong Kong og hefur smit þeirra allra verið rakið til Wuhan, höfuðborgar Hubei-héraðs og miðdepils faraldursins.

Samgöngur skertar, skólum lokað og hátíðarhöldum aflýst

Gripið hefur verið til margvíslegra ráðstafana í Hong Kong til að hamla útbreiðslu veirunnar þar. 122 manneskjur sem nýlega voru í Wuhan og nágrenni eru í einangrun og meðferð gegn mögulegri sýkingu.

Öllum opinberum heimsóknum til meginlands Kína hefur verið aflýst, flug- og lestarsamgöngur til Wuhan lagðar niður og samgöngur við kínverska meginlandið almennt skertar og reglur um þær hertar.

Þá liggur allt skólahald niðri í borginni til 17. febrúar hið minnsta og öllum hátíðarhöldum vegna kínversku áramótanna var aflýst. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV