Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Skólp rennur óhreinsað í Djúpavog

15.10.2019 - 12:52
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Djúpavogshreppur hefur ekki lagt á hámarks fráveitugjöld þó að dýrar fráveituframkvæmdir bíði og skólp fari óhreinsað í sjóinn frá stórum hluta bæjarins. Sveitarstjórinn segir framkvæmdir svo dýrar að gjaldahækkun upp í hámark myndi litlu breyta. Ríkið þurfi að fella niður virðisaukaskatt af fráveituframkvæmdum.

Víða um land eiga sveitarfélög enn eftir að koma fráveitumálum í viðunandi horf. Kröfur voru hertar sem kallaði á framkvæmdir en ríkið setur þak á fráveitugjöld sveitarfélaga. Samkvæmt lögum mega þau mest vera 0,5% af fasteingamati. Þau eiga samt að standa undir rekstri, rannsóknum og vöktun og líka stofnkostnaði og fjármagnskostnaði. Á Djúpavogi stendur nú til að koma fráveitu í viðunnandi horf. „Ástandið á fráveitunni hjá okkur er þannig að hluti af skólpi sem kemur frá þorpinu rennur hér út í voginn. Það koma dagar þar sem við verðum vör við mengun. Það er náttúrulega óásættanlegt og það verður að bregðast við því,“ segir Gauti Jóhannesson sveitarstjóri. Rétt er að taka fram að fiskúrgangi frá fiskvinnslu Búlandstinds er safnað í tanka og hann fluttur til vinnslu í Noregi. 

Fráveitugjöldin 0,3% af fasteignamati en mættu vera 0,5%

Til að byrja með á að leiða skólpið lengra út en til að uppfylla allar kröfur þarf líka að byggja eins þreps hreinsivirki.  Á Djúpavogi eru fráveitugjöld aðeins 0,3% af fasteignamati og mætti hækka þau upp í 0,5% til að auðvelda fjárfestinguna. Gauti segir það ekki duga til. „Í stóra samhenginu þá breytir það ekki öllu til eða frá hvert gjaldið er, þó að það myndi ná lengra ef það væri hærra. En bara þessi fyrstu skref sem við erum að horfa til núna eru tugmilljónkróna dæmi þannig að það er ljóst að það þarf meira til heldur en bara að hækka gjaldskrá.“

Sveitarfélög hafa bent á að það skjóti skökku við að ríkið skattleggi framkvæmdir við fráveitur. „Ríkið það gefi eftir virðisaukaskattinn á fráveituframkvæmdum. Það er stóra hagsmunamálið sem ég veit að Samband íslenskra sveitarfélaga hefur verið að berjast fyrir og jafnframt einstök sveitarfélög. Við erum ekkert sérstök hvað það varðar. Það er mjög víða þar sem á eftir að fara í töluverðar framkvæmdir,“ segir Gauti Jóhannesson, sveitarstjóri á Djúpavogi.

Fleiri framkvæmdir þarfar á Djúpavogi

Djúpavogshreppur, Borgarfjarðarhreppur, Fljótsdalshérað og Seyðisfjarðarkaupstaður hafa verið í sameiningarviðræðum og verður kosið um sameininguna 26 okt.  Komið hefur fram skuldir sveitarfélaganna eru mismiklar en líka fjárfestingaþörf. Gauti segir ekki liggja fyrir hversu mikið hreinsivirkið myndi kosta en fleiri framkvæmdir eru orðnar tímabærar á Djúpavogi. Endurnýja þarf stálþil í höfninni og lengja það vegna aukinna umsvifa. Þá þarf að byggja grjótgarð í höfninni í Gleðivík til að hún nýtist til fulls. Þá eru enn ómalbikaðar götu í bænum og fara þarf í viðhald gata. Einnig að ráðast í boranir eftir heitu vatni og efla vatnsveituna meðal annars til að tryggja öflun á köldu vatni fyrir fiskvinnsluna.

 

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV