Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Skólaganga yfir 1200 barna er skert vegna verkfalla

28.02.2020 - 12:34
Mynd með færslu
Íslenskutími hjá 8. bekk í Hrafnagilsskóla Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Ekki hefur verið boðaður sáttafundur hjá ríkissáttasemjara í kjaradeilu Eflingar og Reykjavíkurborgar. Verkfall hefur staðið frá 17. febrúar og haft mikil áhrif á leikskólastarf, sorphirðu og þrif í borginni.

Börnin heima annan hvern dag

Rúmlega tólf hundruð börn í fjórum grunnskólum, Réttarholts-, Granda-, Voga- og Hamraskóla, fylgja nú svokölluðu veltifyrirkomulagi, þar sem aðeins hluti nemenda getur verið í skólanum í einu því skólastofur hafa ekki verið þrifnar. Helgi Grímsson, formaður skóla og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, segir að kennarar séu að gera sitt besta svo börnin missi ekki úr námi þrátt fyrir skerta skólagöngu.

„Við höfum í rauninni ekki önnur úrræði heldur en þetta. Og ég er bara mjög ánægður með hvernig skólar hafa unnið úr þessari flóknu stöðu. Ég nefni til dæmis að í Réttarholtsskóla hafa þau verið að nota tiltekið fjarkennslusnið, þannig að þegar nemendur eru í skólanum eru þeir eins og í staðarlotu en svo eru verkefni fyrirliggjandi með. Þannig kennararnir eru að gera sitt allra besta til að halda börnum við efnið,“ segir hann. 

Í einhverjum skólum séu börnin heima annan hvern dag. 

Foreldrarnir að verða búnir með sumarfríið

Helgi segist hafa áhyggjur af fjölskyldum sem hafa þurft að taka hátt í mánuð í frí vegna verkfallsins. 

„Þetta hefur gríðarleg áhrif á leikskólabörn sem eru að missa sína taktfestu í lífinu. Og fyrir börn sem eru með raskanir og annað slíkt hefur þetta mjög mikil áhrif. Foreldrar sem hafa ekki traust bakland varðandi pössun eru í mjög erfiðri stöðu og hafa þurft að taka mikið af orlofsdögum til þess að vera heima hjá barni sínu til að vera heima i þessu verkfalli.“

Helgi segir einhverja foreldra vera að nálgast þann stað að klára sumarleyfi sitt.

„Vegna þess að fyrir allsherjarverkfallið voru skæruverkföll og svo voru tveir dagar sem duttu út vegna veðurs. Eins var stóri leikskóladagurinn, sem bar upp á föstudegi, þá var öllum leiksólum lokað. Þannig þetta er að verða kominn mánuður sem börn eru án leikskólaþjónustu í sumum tilvikum,“ segir hann. Þetta skapi nýjan vanda í sumar þegar leikskólar loka vegna sumarfría.

Þórhildur Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV