Eldarnir á austurströnd landsins eru komnir að útjaðri Sydney-borgar og eru þeir verstu í sögu Ástralíu. Þar er nú vor og hitinn hátt í 40 gráður, mikill vindur og þurrkar. Í Nýju Suður-Wales hafa eldarnir logað síðan í september. Þrír hafa látist í eldunum síðan á föstudag og 150 hús hafa brunnið til grunna.
Óttast er að eldurinn nái að breiðast til norðurhluta landsins, þrátt fyrir mikla baráttu þúsunda slökkviliðsmanna við eldhafið. Alþjóðaveðurfræðistofnunin tók í dag undir áhyggjur stjórnvalda. Talsmaður stofnunarinnar sagði í dag að skilaboðin væru einföld, að fólk ætti að koma sér í burt af hættusvæðum.