Skoðar hvort lögregla rannsaki málin að nýju

20.05.2019 - 12:18
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Settur ríkissaksóknari hefur til athugunar hvort ástæða sé til að taka hvarf Guðmundar Einarssonar og Geirfinns Einarssonar til rannsóknar að nýju.

Dómsmálaráðherra hefur skipað Höllu Bergþóru Björnsdóttur, lögreglustjóra á Norðurlandi eystra, settan ríkissaksóknara í Guðmundar- og Geirfinnsmáli. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.

Halla Bergþóra segir í samtali við fréttastofu að henni hafi verið falið að skoða hvort ástæða sé til þess að taka mannshvörfin til rannsóknar á ný, eftir sýknudóm Hæstaréttar. Halla var sett í embættið 22. mars en var í leyfi í apríl. Hún er því skammt á veg komin með athugun sína. Hún segist ekki geta tjáð sig um hvort, og þá hvaða, vísbendingar hafi borist lögreglu um að mannshvörfin hafi borið að með saknæmum hætti.

Sigríður Friðjónsdóttir ríkissaksóknari lýsti sig vanhæfa í málinu, vegna tengsla við einn af aðalrannsakendum málsins á sínum tíma. 

 

Mynd með færslu
 Mynd: Brynjólfur Þór Guðmundsson - RÚV
Halla Bergþóra Björnsdóttir, settur ríkissaksóknari í málinu
alma's picture
Alma Ómarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi