Þrjú tilboð hafa borist í eyjuna Vigur undanfarinn mánuð og er verið að vinna úr þeim. Eitt hefur verið sérstaklega til skoðunar en sala er ekki frágengin.
Mörg misformleg tilboð
Eyjan Vigur í Ísafjarðardjúpi hefur verið kölluð Perlan í Djúpinu og það vakti mikla athygli þegar hún var auglýst til sölu í fyrra. Davíð Ólafsson, fasteignasali hjá fasteignasölunni Borg, segir að síðan þá hafi borist mörg tilboð í eyjuna, misformleg, og að þau séu öll skoðuð. Þó sé miðað við að lágmarkstilboð sé 320 miljónir.
Hafa hug á ferðaþjónustu
Tilboðin þrjú eru öll formleg tilboð, tvö frá Íslendingum og eitt erlendis frá, sem hefur verið sérstaklega til skoðunar. Davíð segir að þeir sem hafi gert þessi þrjú tilboð í eyjuna hafi hug á einhvers konar ferðaþjónustu í eynni.