Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Skoða þarf gjaldtöku á ferðamannaleiðum

17.01.2017 - 10:19
Mynd: Óðinn Jónsson / Morgunvaktin
Nýr ráðherra ferðamála, nýsköpunar og iðnaðar, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, gerir ráð fyrir að fjölga þurfi þeim sem sinna ferðamálum í atvinnuvegaráðuneytinu. Hún bendir á að ferðaþjónustan hafi marga snertifleti í kerfinu. „Það ríkir dálítið óskipulag og ábyrgðin er ekki alls staðar skýr. Eitt stóra verkefnið er að einfalda stjórnsýsluna og auka skilvirkni í greininni,“ sagði ráðherrann á Morgunvaktinni á Rás 1.

Þórdís Kolbrún gerir hinsvegar ekki ráð fyrir að ríkisafskipti af ferðaþjónustu verði eins mikil og þekkt er í eldri starfsgreinum, eins og landbúnaði og sjávarútvegi.  Það hefur verið bent á að það segi sína sögu um vægi ferðaþjónustunnar í stjórnarráðinu að einungis eitt og hálft stöðugildi hafi verið merkt þessum stóra málaflokki. Nú er titillinn ferðamálaráðherra orðinn til í stjórnarráðinu og felst í því viðurkenning á því að taka þurfi til hendinni í málefnum sem tengjast ferðaþjónustunni, sem aflar meiri gjaldeyris en aðrar atvinnugreinar. En Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir boðar ekki útþenslu málaflokksins í atvinnuvegaráðuneytinu, þó ljóst sé að fjölga þurfi sérfræðingum í ráðuneytinu.

„Það má samt ekki verða þannig að stjórnvöld taki eitthvað í fangið sem atvinnugreinin og einstaklingar geta vel leyst.“

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er talað um að áhersla verði lögð á dreifingu ferðamanna um land allt og skynsamlega gjaldtöku. Þórdís Kolbrún lítur á dreifingu ferðamanna sem byggðamál. Gróskan í ferðaþjónustunni feli í sér mikil tækifæri fyrir landsbyggðina. Skoða þurfi flugsamgöngur og halda vegum opnum. „Það eru þessir grunnþættir sem er stjórnvalda að sinna.“ En ljóst er að úrbætur kalla á mikla samræmingarvinnu. Ráðherra bendir á að þó málefni ferðaþjónustunnar heyri undir hennar ráðuneyti, séu samgöngumálin í öðru, landvarsla og náttúruvernd í því þriðja, gjaldtaka- og skattamál í því fjórða. Síðan bætist við sveitarfélögin um allt land og sjálf starfsgreinin. Það kalli á hæfni í samskiptum að láta þetta allt ganga.

Nýr ráðherra ferðamála vill skoða gjaldtöku við vegi. Gerð sé krafa um að hálendisvegir og leiðir sem áður voru fáfarnar og lokaðar á vetrum sé haldið opnum.

„Við þurfum að skilgreina betur hvað séu í raun ferðamannavegir og skoða að hvaða leyti ferðamenn taka þátt í kostnaði sem þessu fylgir.“

Þórdís Kolbrún bendir á að þó vissulega fylgi ferðamönnunum miklar tekjur þá beri þeir ekki sinn hlut af kostnaði við innviðauppbyggingu, eins og víða er gert. Hún telur því ekki óeðlilegt að ferðamenn greiði vegatolla þar sem um væri að ræða vegi sem halda þyrfti opnum í þeirra þágu. Hún bendir á að það sé ekki sanngjarnt að fólk í dreifbýli sitji eftir með skerta vegaþjónustu á meðan átak sé gert við uppbyggingu ferðamannavega án gjaldtöku. „Mér finnst alveg sjálfsagt að skoða að ferðamenn sem vilja keyra um þessa vegi taki þátt í kostnaði að einhverju leyti. Almennt finnst mér við geta skoðað að ferðamenn geti tekið þátt í þessari uppbyggingu.“

 

odinnj's picture
Óðinn Jónsson
dagskrárgerðarmaður