Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Skoða samkomubann færist útbreiðslan í aukana

04.03.2020 - 10:37
Mynd með færslu
 Mynd: Beggi - RÚV
Fari svo að COVID-19 smit fari að berast manna á milli hér á landi kemur til greina að grípa til víðtækari ráðstafana á borð við samkomubann. Ef tilfellin dreifast yfir lengri tíma er heilbrigðiskerfið mun betur í stakk búið til að takast á við faraldurinn.

Þetta sagði Alma Möller landlæknir í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. Þar ræddi hún viðbrögðin við útbreiðslu COVID-19 veirunnar. Sextán staðfest tilfelli hafa verið skráð hér á landi fram til þessa. Flestir þeirra sem sýkst hafa voru á skíðum í Norður-Ítalíu.

„Þetta er bara stríð“

Alma hefur nokkrar áhyggjur af stöðunni á Ítalíu og telur að þar séu mun fleiri sem ganga með veiruna en hafa fengið greiningu. Tekur hún sem dæmi að í Trentino, þar sem Íslendingarnir dvöldu, hafi enn ekki verið tilkynnt um smit.

„Þetta er bara stríð og núna erum við að verjast innrás. Þeir hafa kannski bara verið á undan að fá smitið út í sitt samfélag. Þetta er auðvitað mjög hröð útbreiðsla og á 10 dögum hefur Ítalía farið frá níu tilkynntum tilvikum upp í að verða örugglega yfir tvö þúsund í dag, og úr engu dauðsfalli upp í 85.“

Læknar í útlöndum hissa á viðbrögðum sinna stjórnvalda

Þegar Alma er spurð hvort löndin í kringum okkur séu sofandi gagnvart útbreiðslu veirunnar svarar hún því til að smæðin vinni með Íslandi. Hér hafi yfirvöld betri yfirsýn yfir flugfarþega og nái betur til fjöldans. Hún bætir við: „En ég veit til dæmis, án þess að ég nefni nokkur lönd, að ég náttúrlega þekki lækna víða og þeir eru hissa af hverju sum stjórnvöld eru ekki að gera enn meira.“

Óþarfi að afbóka ferðir strax

Yfirvöld hafa ráðið almenningi frá því að ferðast til áhættusvæða, sem eru Kína, Ítalía, Suður-Kórea og Íran. Staðan er hins vegar metin frá degi til dags og geta breytingarnar verið örar. Alma segir ekki sé þörf á að afbóka í snarhasti ferði utan áhættusvæða. „Ef ég væri í þeim sporum myndi ég doka aðeins við, sjá hvað gerist á næstu dögum og fylgjast með leiðbeiningum.“

Frekari ferðatakmarkanir og samkomubann í áætlunum

Enn sem komið er hafa allir sem greinst hafa með veiruna hér á landi komið að utan. Alma telur þó að það sé einungis tímaspursmál hvenær smit berst manna á milli hér á landi. Þá kann að verða gripið til frekari ráðastafana. „Auðvitað er það jákvætt meðan það gerist ekki en við reiknum auðvitað með því. Þá verður aftur metið, ætlum við að grípa til víðtækari aðgerða eins og að hindra enn frekari ferðir, samkomubann og svo framvegis. Við vinnum auðvitað samkvæmt áætlun sem heitir landsáætlun um heimsfaraldur og það er búið að hugsa fyrir mjög mörgu.“

Stórum viðburðum þegar aflýst

Stofnanir og fyrirtæki hafa reyndar sjálf tekið af skarið og aflýst stórum samkomum, bæði hér heima og erlendis. Eve FanFest, sem átti að halda í Hörpu í apríl, var slegið af, sýningunni Verk og vit, sem halda átti í Laugardalshöll, var frestað fram í október og Matarmarkaði Íslands, sem átti að vera í Hörpu um næstu helgi, var frestað fram í maí. Pósturinn, Össur og Verkvit hættu öll við að halda árshátíð, knattspyrnuleikir á Ítalíu eru leiknir fyrir luktum dyrum, sjávarútvegssýningin í Boston var slegin af í gær og Alþjóðaíshokkísambandið aflýsti riðli Íslands í keppni 18 ára landsliða sem leika átti í Istanbúl. Þá var einni frægustu bókasýningu heims, í Leipzig í Þýskalandi, aflýst. Og er þá fátt eitt talið.

Hægt að hemja útbreiðsluna

Alma segir að góðu fréttirnar í þessu öllu saman séu að hægt sé að hemja útbreiðslu veirunnar með aðgerðum líkt og þeim sem gripið hefur verið til hér á landi. Miklu máli skiptir að hindra að faraldurinn berist hingað mjög snöggt. „Ef margir veikjast á fáum dögum verður það auðvitað gríðarleg áskorun fyrir heilbrigðiskerfið en ef tilfellin dreifast á lengri tíma ráðum við betur við það.“