
Starfsmenn álversins í Straumsvík voru boðaðir til starfsmannafundar í morgun. Ástæðan var sú að stjórnendur fyrirtækisins vildu upplýsa starfsmenn um efni tilkynningarinnar.
Í tilkynningu sem móðurfélagið gaf út segir að gert sé ráð fyrir að rekstur fyrirtækisins hér á landi, ISAL, verði áfram óarðbær til skemmri og meðallangs tíma sökum ósamkeppnishæfs orkuverðs og lágs verðs á áli í sögulegu samhengi.
„Framlag ISAL til íslensks efnahagslífs er umtalsvert og við munum vinna náið með þeim sem eiga gagnkvæma hagsmuni að því að treysta framtíð ISAL, þ.m.t. ríkistjórn, Landsvirkjun, starfsfólki, stéttarfélögum og sveitarfélaginu,“ segir Alf Barrios, forstjóri Rio Tinto Aluminium. Í Straumsvík starfa um 500 manns.
Í frétt Morgunblaðsins af málinu kemur fram að fundað hafi verið með Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsráðherra, vegna þrenginga fyrirtækisins og reynt hafi verið að koma á fundi með fulltrúum Landsvirkjunar til að ræða orkuverð.