Skoða hvort persónuleikapróf var í samræmi við umsókn

18.02.2020 - 20:51
Mynd: Skjáskot / RÚV
Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar, segir að gögn sem Íslensk erfðagreining sendi inn með umsókn sinni um að leggja persónuleikapróf fyrir almenning hafi ekki borið skýrt með sér að hægt yrði að deila niðurstöðunum á samfélagsmiðlum. Hún segir að þetta verði að skoða.

„Það er atriði sem þarf að skoða. Fólki er í sjálfsvald sett hvað það gerir,“ sagði Helga í Kastljósi í kvöld um dreifingu persónuleikaprófa á samfélagsmiðlum. Hún sagði þekkt að fyrirtæki nýti sér upplýsingar sem fólk deilir á samfélagsmiðlum, meðal annars til að hafa áhrif á kauphegðun og stjórnmálaskoðanir. 

Mynd: Skjáskot / RÚV

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, sagði að framkvæmdin væri nákvæmlega eins og fyrirtækið sagðist ætla að gera hana. Hann sagði að öllu leyti farið eftir leyfum frá Vísindasiðanefnd sem hefðu fengið blessun Persónuverndar. „Það er ekki okkar að banna fólki að deila einhverju á Facebook. Þó það hefði enginn hnappur verið með þessu prófi hefði fólk samt getað deilt því.“ Hann sagði að ekkert í framkvæmdinni hefði búið til þann möguleika að deila

Hann sagðist halda að ekki hefði verið æskilegt að setja hnappinn, í það minnsta hefðu átt að fylgja honum varnaðarorð.

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV

Kári sagði að enginn hefði hvatt fólk til að deila niðurstöðum persónuleikaprófsins þrátt fyrir að hnappur til slíkrar deilingar hefði verið settur á síðuna. Hann var spurður hvort fyrirtækið væri ekki komið út á hættulegar slóðir að hvetja til dreifingar með því að setja deilihnapp á síðuna.

„Að ætlast til að fólk taki ábyrgð á sjálfu sér? Er það að fara út á hættulegar slóðir?“ svaraði Kári.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi