Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Skoða húsnæði undir varasjúkrahús vegna kórónuveirunnar

26.03.2020 - 06:48
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Heilbrigðisstarfsmenn í Samhæfingarstöðinni í Skógarhlíð hafa verið að skoða húsnæði sem nota mætti sem varasjúkrahús í samstarfi við Landspítalann. Þetta kemur fram í stöðuskýrslu vegna COVID-19 faraldursins. Samkvæmt upplýsingum frá Embætti landlæknis er ekki mikið hægt að segja um málið að svo stöddu þar sem vinnan við þetta er tiltölulega stutt á veg komin.

Sjúkratryggingar Íslands hafa þegar tekið á leigu hótel við Rauðarárstíg sem notað er undir sóttkví fyrir erlenda ferðamenn. 

Samkvæmt nýuppfærðu spálíkani vísindamanna Háskóla Íslands, Embætti landlæknis og Landspítala er gert ráð fyrir því að alls muni 1.500 manns sýkjast af kórónuveirunni á meðan farsóttin gengur yfir. Svartsýnasta spáin gerir ráð fyrir að þeir verði 2.300. 

Spár gera ráð fyrir að þegar sýkingin nær hámarki fyrstu vikuna í apríl verði  1.200 manns með sýkinguna . Gangi svartsýnustu spár eftir verða þeir 1.600  Hátt í 100 manns gætu þurft að leggjast inn á sjúkrahús ef bestu spár ganga eftir en í versta falli gætu þeir verið 160.

Mesta álag á heilbrigðisþjónustu verður fyrir miðjan apríl þegar spáin gerir ráð fyrir að tæplega 60 geti verið inniliggjandi á sama tíma.  Samkvæmt þeirri svartsýnustu gætu þeir verið 80.  13 gætu þurft að leggjast inn á gjörgæslu, 23 ef svartsýnustu spár ganga eftir.

Því er spáð að mesta álag á gjörgæsludeildir gæti orðið í annarri vikunni í apríl. Þá er búist við að fimm manns liggi þar inni á sama tíma, en samkvæmt svartsýnustu spá gætu það verið 11 manns.

Á vefnum covid.is kemur fram að 737 hafi greinst með COVID-19 sjúkdóminn frá því að fyrsta smit var staðfest 28. febrúar. Langflestar sýkingarnar eru á höfuðborgarsvæðinu eða 578.  Samkvæmt vef Landspítalans liggja fimmtán inná Landspítalanum, þar af tveir á gjörgæslu og er einn þeirra í öndunarvél.