Skoða að færa biðstöðvar Strætó á Akureyri

27.09.2019 - 15:03
Mynd með færslu
 Mynd: Jón Þór Kristjánsson - RÚV
Bæjarráð Akureyrar skoðar nú möguleika varðandi biðstöðvar í miðbæ Akureyrar. Til stendur að breyta núverandi stoppistöð við Hofsbót og eru nokkrir möguleikar viðraðir í skýrslu verkefnahóps um mögulegar biðstöðvar.

Á fundi bæjarráðs Akureyrar í gær var greinargerð verkefnahóps um staðsetningu á miðbæjarbiðstöð Strætisvagna Akureyrar lögð fram. 

Í skýrslu sem hópurinn hefur unnið síðan í byrjun árs koma fram tillögur um um umferðamiðstöð á tveimur stöðum. Verkefnahópurinn tiltekur sérstaklega tvær tillögur sem þykja heppilegar, norðan við Ráðhús Akureyrar annars vegar og við Glerárgötu gegnt Hofi hins vegar. Kostir og gallar hvorrar lausnar eru raktir í skýrslunni. Þá eru einnig viðraðar hugmyndir um að biðstöðvar meðfram og beggja vegna Glerárgötu gegnt Ráðhúsinu. 

Miðað við þá frumkostnaðaráætlun sem lögð er fram í skýslunni, er gert ráð fyrir að sá kostur að gera umferðarmiðstöð norðan við Ráðhús Akureyrar kosti um 110 milljónir króna. Þar þyrfti að ráðast í margvíslegar framkvæmdir eins og að breyta aðkomu vagna frá Smáragötu, breyta aðkomu að Ráðhúsinu, fækka bílastæðum og færa hleðslustæði.

Hins vegar er gerð tillaga að bráðabirgðaúrlausn við núverandi biðstöð við Hofsbót. Þar yrðu biðstöðvar fluttar og hafðar norðan megin götunnar. Þannig skapist rými til að úthluta lóð við Hofsbót 2. Þá þyrfti að fækka bílastæðum um 12 til að skapa snúningspláss fyrir vagna og koma fyrir stæðum fyrir vagna. Kostnaður við þá framkvæmd er áætlaður um 11 milljónir króna.

bjarnir's picture
Bjarni Rúnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi