Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Skjótt skipast veður á bekknum

Mynd: Þórarinn Leifsson / Þórarinn Leifsson

Skjótt skipast veður á bekknum

28.11.2019 - 12:38

Höfundar

Á einu ári fór Þórarinn Leifsson rithöfundur 76 sinnum gullna hringinn með erlenda ferðamenn og í hvert skipti tók hann mynd af bekk fyrir framan goshverinn Strokk. Afraksturinn ásamt meðfylgjandi dagbókarskrifum hefur nú komið út í ljósmyndabókinni Bekkurinn.

„Hún kviknaði bara af sjálfu sér, ég var alltaf að taka mynd af þessum bekk, og á sama tíma alltaf að skrifa dagbók,“ sagði Þórarinn í Síðdegisútvarpinu á Rás 2. „Svo leið næstum ár og þá ákvað ég að taka þetta saman í bók.“ Stundum er mikið líf og fjör á eða við bekkinn, en stundum er hann auður, auk þess sem veðurfar er auðvitað mjög mismunandi milli þátta. Ásamt myndunum eru svo dagbókarfærslur Þórarins þar sem hann meðal annars gefur ferðunum einkunn eins og á Tripadvisor. „Þetta gerir starfið mitt meira spennandi að vinna að svona verkefnum. Það var einhver sem sagði við mig að þetta væru nútímaverbúðarsögur. Því með því að fletta í gegnum bókin sérðu hvaða túristar koma á hvaða tíma ársins og svona. Þannig ef einhver mannfræðingur vill hringja í mig þá er það fínt.“

Mynd með færslu
Þórarinn fær sér stundum sjálfur sæti á bekknum.

Þórarinn segist hafa farið 160 ferðir á einu ári sem sé nokkuð þétt. Fyrir utan gullna hringinn tekur hann fólk í nokkurra daga einkaferðir, til dæmis á Snæfellsnes. „Allt sem ég er að skrifa núna er undir áhrifum frá þessu, ég er með tvær aðrar hugmyndir í vinnslu, þar á meðal skáldsögu, þar sem ég reyni líka að ná utan um ferðamannabransann. Eitt það skemmtilegasta sem ég uppgötvaði þegar ég byrjaði í bransanum var hvað það er mikið af listamönnum, týpum eins og kennurum og kvikmyndagerðarmönnum, frílansarar sem skolast hér inn.“ Á sumum myndanna í bókinni gefur að líta furðulegar aðstæður sem sköpuðust óvænt, því Þórarinn gaf sér aldrei tíma í uppstillingu eða annað slíkt vegna þess hann þurfti að sinna gestunum. „Oft er eins og fólkið sé uppstillt sem það var aldrei. Ég flýtti mér alltaf bara að smella af þannig myndirnar verða algjör tilviljun.“

Andri Freyr Viðarson ræddi við Þórarinn Leifsson í Síðdegisútvarpinu á Rás 2.

Mynd með færslu
Ferðamenn gera mikið af því að bregða á leik.
Mynd með færslu
Þessi voru mögulega að fylgjast með einhvers konar flygildi.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Barflugur Snorranna suða á ný

Myndlist

Leitaði lífsins í siglingu um Karíbahafið

Myndlist

Ljóðræn bók um lífið í jöklunum

Bókmenntir

Saga um barnahatara og önnur um vindinn