
Skjálftahrina nærri Grindavík
Klukkan 16:53 varð skjálfti sem mældist 3,3 og klukkan 17:56 varð annar sem mældist 3,2. Báðir skjálftarnir áttu upptök sín rétt vestan við fjallið Þorbjörn. Fjöldi eftirskjálfta hefur mælst og hafa stærstu skjálftarnir fundist víða í byggð, meðal annars á höfuðborgarsvæðinu.
„Það er hrina í gangi og við erum að reyna að átta okkur á hvað er að gerast,“ segir Kristín.
Fleiri skjálftar líklegir
Skjálftarnir eru grunnir og Kristín segir að ekki sé hægt að útiloka að þeir hafi eitthvað með jarðvarmavinnsluna í Svartsengi að gera, en þeir eiga upptök sín nærri jarðvarmavirkjun HS Orku á svæðinu.
Kristín segir að ef jarðhræringarnar hafa ekkert með vinnslu á svæðinu að gera þurfi að komast að því hvort þær hafi eitthvað með kvikusöfnun að gera. Ekki hafi enn fengist svar við þeirri spurningu.
Aðspurð segir Kristín líklegt að fleiri skjálftar verði á svæðinu á næstunni.
Frá því var greint á dögunum að jörð er farin að rísa á ný við Þorbjörn. Landrisið er þó hægara en það sem mældist í lok janúar, þó það eigi sér stað á svipuðum slóðum. Sérfræðingar Veðurstofunnar telja líklegast að kvikusöfnun hafi tekið sig upp á ný. Snarpur jarðskjálfti af stærðinni 5,2 varð við Grindavík í síðustu viku.