Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Skjálfa og æla af hræðslu við flugeldasprengingar

29.12.2019 - 18:36
Innlent · flugeldar · gæludýr · Hundar · kettir
Mynd: Þór Ægisson / RÚV
Dýralæknir segir mikilvægt að eigendur gæludýra séu rólegir um áramótin þegar flugeldasprengingar kveða við, því það geti róað dýrin. Þau geti skolfið, ælt og verið of hrædd til þess að vilja fara út að pissa.

Esja er fimm mánaða hvolpur af íslensku fjárhundakyni. Hún er því að fara að upplifa sín fyrstu áramót.

„Við fengum alls konar leiðbeiningar um hvernig maður á að þjálfa hvolpinn fyrir áramótin út af flugeldunum. Eitt af þeim ráðum sem við fengum var að horfa á myndbönd af flugeldum með hljóðum,“ segir Björn Ingi Hilmarsson, eigandi Esju.

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV

En Esja veitir flugeldasýningunni á sjónvarpsskjánum litla athygli og virðist láta sér hávaðann í léttu rúmi liggja.

Það eru engin merki um að hún sé smeyk?

„Nei, svo veit maður ekki. Ég ætla að reyna að athuga hvort það sé ekki einhvers staðar flugeldasýning í kvöld. Svo ég ætla að tékka á því, fara með hana þangað og sjá hvernig hún bregst við,“ segir Björn Ingi.

Mynd: Þór Ægisson / RÚV

En mörg gæludýr, einkum hundar, eru mjög hrædd við flugeldasprengingar.

„Ég hef í rauninni helst þau ráð að sinna dýrunum þannig að þau séu ekki ein, sérstaklega dýr sem eru hrædd. Sýna þeim stuðning, vera til staðar. Maður á ekki endilega að vorkenna þeim en kannski bara að leggja hendina yfir þau og láta þau vita að þetta sé allt í góðu lagi. Ef þau leita í skjól, alls ekki að reyna að fá þau þaðan undan. Þetta er mikil hræðsla, andleg hræðsla kemur fram líkamlega. Þau skjálfa, slefa, geta kastað upp m.a.s. Þau nærast ekki. Þau fara ekki út að pissa í marga daga. Þannig að vera til staðar,“ segir Hanna M. Arnórsdóttir dýralæknir.

Í einstaka tilfellum þurfi að gefa dýrunum róandi lyf.

„En það eru dýr sem verða það hrædd að þau ná sér ekki og eru í raun og veru trámatíseruð. Fólk sem kemur til okkar og fær lyf fyrir dýrin sín sér það er að sjá stíganda í hræðslu áramót eftir áramót og jafnvel önnur hljóð koma sem trigger á þessa hræðslu,“ segir Hanna.

Hanna segir að nú sé of skammt til áramóta til þess að byrja að spila flugeldahljóð fyrir gæludýr. Byrja þurfi fyrr á árinu.