Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Skipulagsráð Akureyrar vill lækka háhýsin á Oddeyri

28.11.2019 - 13:12
Hugmyndir að uppbyggingu á Oddeyri á Akureyri, allt að ellefu hæða hús.
Fyrstu hugmyndir gerðu ráð fyrir allt að 11 hæða húsum Mynd: Zeppelin
Skipulagsráð Akureyrarbæjar telur ekki rétt að byggðin á Oddeyri verði eins há og gert er ráð fyrir í tillögum að breyttu aðalskipulagi. Skipulagsstofnun telur óljóst hvaða forsendur liggi að baki svo viðamiklum breytingum á aðalskipulagi.

Í byrjun október samþykkti bæjarstjórn á Akureyri tillögu um breytingu á aðalskipulagi fyrir Oddeyri vegna hugmynda frá verktakanum SS Byggi sem vill byggja þar nokkur 6-11 hæða fjölbýlishús. Þar hafði verið gert ráð fyrir mun lágreistari byggð. Þetta olli miklum deilum á meðal íbúa og fullt var út úr dyrum á kynningarfundi sem haldinn var 20 dögum eftir að tillagan var samþykkt í bæjarstjórn.

36 athugasemdir auk umsagna fá opinberum stofnunum 

Í gær tók Skipulagsráð Akureyrarbæjar fyrir þær umsagnir sem borist hafa vegna þessarra fyrirhuguðu breytinga á aðalskipulagi. Alls bárust 36 bréf með athugasemdum, auk umsagna frá nokkrum opinberum stofnunum.

Íbúar verði að geta fylgst náið með  

Skipulagsstofnun gagnrýnir meðal annars að ekki sé nægilega fjallað um hvernig staðið verði að kynningu og samráði. Mikilvægt sé að við svo veigamiklar breytingar í gróinni byggð, verði íbúar og aðrir hagsmunaaðilar að geta fylgst með og komið að mótun slíkrar tillögu á vinnslustigi. Skipulagslýsingin hefði verið rétti vettvangurinn til að setja fram slíka kynningar- og samráðsáætlun. Þá sé óljóst hvaða forsendur liggi að baki svo viðamiklum breytingum á aðalskipulagi og hvaða greining liggi fyrir um framboð og þörf á þeirri tegund húsnæðis sem áformað er að reisa á þessu svæði.    

Athugasemdir úr fleiri áttum

Ferkari gagnrýni og athugasemdir koma fram í umsögunum. Meðal annars frá Isavia sem telur háhýsin geta truflað flugumferð og undir það tekur Samgöngustofa í sinni umsögn. Minjastofnun leggst gegn háhýsabyggð á þessum stað, rétt við friðlýstu Gránufélagshúsin, og Hafnarsamlag Norðurlands telur byggingarnar geta þrengt að hafnarstarfsemi. Þá telur hverfisnefnd Oddeyrar að slík háhýsabyggð eigi ekki heima á þessum stað.

Telja ekki rétt að reisa svo háa byggð

Á fundi skipulagsráðs í gær bókaði ráðið að miðað við framkomnar athugasemdir sé ekki rétt að reisa eins háa byggð og lýst hefur verið á Oddeyrinni. Pétur Ingi Haraldsson, sviðsstjóri skipulagssviðs, sagði í samtali nú rétt fyrir fréttir að áður en málið fari aftur fyrir bæjarstjórn þurfi að þróa skipulagatillögurnar áfram og gera á þeim breytingar. Síðan þufri að kynna þær aftur fyrir í búum og öðrum sem hafi hagsmuna að gæta.