Skipulagning Þingvalla skemmtilegt verkefni

11.07.2019 - 08:52
Mynd: Anton Brink RÚV / RÚV Anton Brink
Varaformaður Þingvallanefndar segir að unnið sé að breytingum á skipulagningu Þingvallaþjóðgarðs. Ekki stendur til að endurreisa hótel á Þingvöllum.

Vilhjálmur Árnason, varaformaður Þingvallanefndar sagði á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun að unnið væri að því að útbúa deiliskipulag fyrir þingstaðinn og svæðið þar sem þinghelgin er á Þingvöllum. Það verði skemmtilegt verkefni.

Hugmyndir séu um að færa alla athafnastarfsemi, svo sem bílastæði, upp á brúnina, á Hakið, og hafa ekkert í gjánni. Þannig verði hægt að njóta betur útsýnisins og fegurðar staðarins. Auk þess búi þetta til hringflæði um Þingvelli, segir hann.

Ekki standi til að reisa hús eða hótel í þjóðgarðinum. Í gær voru tíu ár liðin frá því að Valhöll brann.

„Ég hvet sveitarfélögin í nágrenni þessara friðlýstu svæða og þjóðgarðanna að hugsa svolítið um hvernig þau skipuleggja einhvers konar þjónustusvæði og íbúabyggð svo að starfsfólkið hafi tök á að búa við vinnustaðinn og svolítið að glæða nærsveitirnar lífi,“ segir hann. 

Vilhjálmur segist stoltur af því hvernig hafi gengið að halda svæðinu og staðnum ósnortnum.

„Ásýnd hans hefur skánað eftir því sem gestunum hefur fjölgað af því að það hafa verið teknar skynsamlegar ákvarðanir. Starfsfólkið er mjög lausnamiðað og stendur sig mjög vel og er bara mjög íhaldssamt með staðinn.“

Katrín Ásmundsdóttir
vefritstjórn
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi