Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Skiptu um skoðun eftir að hafa kynnt sér mál betur

25.01.2020 - 15:09
Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Stuðningur fólks við landsdóms ákvæði í stjórnarskrá og ákæruvald Alþingis dróst saman um 20 prósent eftir að það hafði kynnt sér málin sérstaklega. Þetta er á meðal niðurstaðna úr rökræðukönnun sem kynntar voru í Veröld í morgun.

Viðhorf þátttakenda á umræðufundi sem fram fór í Laugardalshöll í nóvember um stjórnarskrá Íslands voru könnuð sérstaklega fyrir og eftir fund. Niðurstöðurnar voru kynntar í Veröld í morgun.

Jón Ólafsson prófessor við Háskóla Íslands, segir að markmiðið hafi verið að kanna hvernig viðhorf fólks breytist þegar það fær tækifæri til að kynna sér mál vel. Í nokkrum málum hafi orðið frekar afgerandi breytingar. 

„Ég nefni sem dæmi afstöðu til landsdóms og ákæruvalds Alþingis. Þar er 20 prósenta breyting, það er að segja stuðningur við þetta kerfi minnkar mjög mikið og jafnframt stuðningur þá við að breyta stjórnarskránni þannig að Alþingi hafi ekki lengur vald til að ákæra ráðherra og Landsdómur verði úr sögunni. Svo eru aðrar breytingar sem endurspegla kannski að fólk skilur ákveðna hluti betur, til dæmis viðhorf til kosningakerfa.“

Sex málaflokkar hafi verið til umræðu á fundinum í Laugardalshöll; embætti forseta Íslands, þjóðaratkvæðagreiðslur, Landsdóm og ákæruvald Alþingis, breytingaákvæði stjórnarskrárinnar og alþjóðasamstarf. 

Jón segir að þarna hafi gefist tækifæri til að kanna afstöðu fólks sem hafi kynnt sér mál betur en yfirleitt sé raunin í venjulegum skoðanakönnunum. 
Á umræðufundinum hafi fólk fengið upplýsingar, þar sem reynt hafi verið að gæta að hlutlægni, fengið tækifæri til að spyrja sérfræðinga og ræða við fólk á annarri skoðun en það sjálft.  

„Því að tilfellið er að, eins og lýðræðið hefur þróast hjá okkur, þá verður þetta alltaf fátíðara. Það er að segja við erum miklu meira læst inni í búbblu fólks með svipaðar skoðanir og við. Þess vegna hefur það mjög mikið gildi að búa til vettvang þar sem fólk með ólíkar skoðanir getur talað saman af fullri virðingu og reynt að skilja sjónarmið hvers annars.“

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV

Á meðal þess sem fram hafi komið í niðurstöðunum hafi verið að viðhorf fólks til fólks á andstæðri skoðun hafi orðið jákvæðari eftir þátttöku í fundinum. „Við sjáum það líka, það er hluti af niðurstöðunum sem er mjög athyglisvert, að viðhorf fólks til andstæðinga sinna, viðhorf til þeirra sem hafa aðrar skoðanir það breytist líka, það verður jákvæðara.“

Um framhaldið segir Jón að vonast sé til þess að stjórnvöld noti niðurstöðurnar og taki þannig tillit til sjónarmiða almennings, sem þarna komi skýrt fram, við gerð frumvarpa um stjórnarskrána og greinargerðir. „Við náttúrlega gerum ráð fyrir því, það er að segja háskólafólkið sem stendur að þessu núna, að taka þátt í þeirri vinnu líka.“

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV