Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Skipti máli að búa í haginn fyrir mögru árin

12.09.2019 - 11:59
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Nú kemur í ljós hversu miklu máli það skipti að búa vel í haginn fyrir mögru árin þegar vel gekk í efnahagslífi landsmanna síðustu ár, sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra þegar hann mælti fyrir fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar í dag. Þingmenn Miðflokks og Flokks fólksins lýstu áhyggjum af umhverfissköttum en þingmenn Samfylkingarinnar og Viðreisnar lýstu fjárlagafrumvarpinu sem óskhyggju og draumsýn.

„Með því að ríkissjóður hefur verið rekinn með góðum afgangi á toppi hagsveiflunnar og skuldir lækkaðar er nú mögulegt að mæta breyttum aðstæðum án þess að hefja skuldasöfnun og fara í niðurskurðaraðgerðir eins og allt of oft hefur orðið niðurstaðan í fyrri niðursveiflum,“ sagði Bjarni.

Fjármálaráðherra sagði að Ísland væri enn meðal þeirra ríkja í Evrópu sem skila mestum frumjöfnuðu. Þetta rakti hann til ábyrgrar fjármálastefnu stjórnvalda síðustu ár. Staða þjóðarbúsins er sterk, atvinnustig hátt og verðbólga lág, sagði Bjarni. Auk þess hefði þeim sem kaupa sína fyrstu íbúð fjölgað undanfarið.

Efaðist um gagn grænna skatta

Birgir Þórarinsson, þingmaður Miðflokksins, spurði út í skatta sem eru lagðir á vegna loftslagsvár, einkum hækkun kolefnisskatta. Hann sagði mikilvægt að sýna fram á að skattheimtan skilaði árangri út frá umhverfisverndarsjónarmiðum. Hins vegar hefði ekki verið sýnt fram á það.

Bjarni svaraði því til að kolefnisgjaldið yrði látið hækka í skrefum. Hann spurði hvaða mælistiku Birgir myndi leggja á árangur. Hér mætti ef til vill líta til þess að hvergi nema í Noregi gangi innleiðing rafbíla betur en hér á landi. Bjarni sagði að þessi breyting væri ótvíræður árangur af ívilnunarkerfi og grænum sköttum.

Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Oddný Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.

Óskhyggja ríkisstjórnarinnar

Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði að engin krafa væri gerð til þeirra sem nutu uppsveiflunnar mest um að leggja meira af mörkum í niðursveiflunni. Hún sagði frumvarpið birta óskhyggju ríkisstjórnarinnar um að allt færi á betri veg frekar en að brugðist væri við með leiðum til að afla tekna.

Fjármálaráðherra sagði að alltaf væri óvissa um framtíðina og að það væru blikur á lofti í alþjóðaviðskiptum. Stjórnvöld verða hins vegar að nota opinberar hagspár þegar þau gera áætlanir sínar, sagði Bjarni. Hann sagði ríkissjóð í góðri stöðu til að mæta samdráttarskeiði ef það yrði lengra en nú er spáð. „Samfylkingin eins og venjulega saknar þess að sjá ekki skattahækkanir,“ sagði Bjarni.

„Ég skil hæstvirtan ráðherra þannig að honum sé umhugað um kjör þeirra sem best standa í samfélaginu, en hvað um þá sem eru fátækastir?“ spurði Oddný. Hún spurði hvað yrði um þá sem fá 242 þúsund krónur í bætur, eða 310 þúsund krónur að hámarki. Þetta séu að stærstum hluta konur.

Kallaði fjárlagafrumvarpið draumsýn

Þorsteinn Víglundsson, varaformaður Viðreisnar, kallaði fjármálafrumvarpið draumsýn ríkisstjórnarinnar. „Þessi draumsýn hefur sennilega aldrei verið meiri en einmitt núna,“ sagði Þorsteinn. Hann sagði að ítrekað hefði þurft að endurskoða forsendur fjárlaga yfirstandandi árs en að þrátt fyrir það væru þau langt frá því að ganga eftir. Hann sagði 20 milljarða tekjuveikleika í ár og að minnsta kosti 20 til 30 milljarða útgjaldaveikleika á fjárlagafrumvarpi næsta árs.

Bjarni sagði að þetta væri mikil lesning yfir hausamótunum á hagfræðingum. Hann sagði hægt að gagnrýna þá sem hafa sett saman hagspár sem stjórnvöld hafa notast við. Bjarni spurði hvert raunverulega vandamálið væri sem Þorsteinn talaði um og hvernig það bitnaði á heimilunum. Hann sagði að það birtist allavega ekki í vöxtum heimilanna, uppgreiðslu skulda eða öðrum þáttum.

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins.

Skipta ekki af druslu yfir á rafmagnsbíl

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, sagði mikið rætt um boðaðar skattalækkanir. „En á sama tíma er verið að boða hér endalausar álögur, kolefnisgjald, urðunargjald, græna skatta hingað og þangað. „Á hverjum mun það bitna í rauninni að þurfa að borga hækkað kolefnisgjald?“ spurði Inga og svaraði sjálf: „Það er fátæku fólki sem keyrir um á gömlu druslunni, varla nógu dekkjuð til að komast áfram í umferðinni. Það eru þeir sem hafa ekki ráð á því, hvorki að endurnýja gamla bílinn né að kaupa sér rafmagnsbíl.“

Bjarni sagði skoða þyrfti stóru myndina. Skoða þyrfti lífskjarasamningana í upphafi. Með þeim hefði verið lögð línan fyrir kjarasamninga á opinberum markaði. Þar hefði verið lögð sérstök áhersla á að létta undir með lágtekjufólki. Þetta birtist með hærri barnabótum, hærri greiðslum í fæðingarorlofi og skattalækkun sem sé sérstaklega sniðin að því að lækka umfram allt skattana hjá lág- og lægra millitekjufólki.