Skiptast á að vera Auður Laxness

Mynd: - / -

Skiptast á að vera Auður Laxness

12.11.2019 - 10:00

Höfundar

„Þetta er alls ekki í lagi,“ viðurkennir Bergþóra Snæbjörnsdóttir rithöfundur um tilvonandi jólahald á hennar heimili en hún og Bragi Páll Sigurðarson, maki hennar sem einnig er skáld, eignuðust saman barn á dögunum samtímis því að þau gefa bæði út sína fyrstu skáldsögu. „Nei þetta algjörlega hræðilegt að raða þessu svona upp og það sýnir bara skort á dómgreind,“ samsinnir Bragi.

Það stefnir í algjört metár í útgáfu íslenskra skáldverka í jólabókaflóðinu í ár en þar leynast tvær glænýjar bækur eftir nýbakaða foreldra sem bæði eru að gefa út sína fyrstu skáldsögu. Flestir höfundar og aðstandendur þeirra kannast líklega við stressið og og eftirvæntinguna sem fylgir bókaútgáfu jólanna með tilheyrandi dómum, metsölulistum og upplestri en í ofanálag eru þau Bergþóra og Bragi með þriggja vikna barn á heimilinu og svefnleysi og streita eftir því.

Leyfi til að skrifa ljótar setningar

Bergþóra bendir á að fjölgunin í fjölskyldunni taki þó aðeins pressuna af bókaútgáfunni og að þau neyðist til að skilja egóið eftir við hurðina stundum sem hafi sína kosti. Bækur þeirra, Austur eftir Braga Pál sem gefin er út af Sögum og Svínshöfuð Bergþóru sem gefin er út af Benedikt, eru báðar lentar í öllum betri bókabúðum landsins en bæði hafa þau áður gefið út ljóðabækur. Parið kynntist þegar þau voru bæði að læra ritlist í Háskóla Íslands og smullu þau fljótlega saman enda deildu þau sígarettum og hatri á öllu að eigin sögn. 

Spurð hvort það sé átak að færa sig úr ljóðagerð í skáldsögu segist Bergþóra hafa verið alveg tilbúin til þess enda innihélt bók hennar Flórída, sem meðal annars var tilefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2017, ljóð sem voru í þéttari og lengri kantinum og voru gjarnan kölluð prósa- eða söguljóð í umfjöllun um bókina. „Flórída var svolítil brú. Mér fannst ég alveg tilbúin að fara yfir í skáldsögu en mér fannst það samt erfitt því að þegar maður skrifar lengri texta þarf maður að leyfa sér að skrifa ljótar setningar,“ segir hún. „Stundum verður fólk bara að fara á klósettið í skáldsögu en í ljóðum er allt svo meitlað og kjarnað.“

„Labba um íbúðina með te og dæsa“

Hún viðurkennir að það geti verið erfitt að reyna að finna sér tíma á milli anna og barnauppeldis til skrifta og þau hafi þurft að skipuleggja sig vel enda er hvorugt þeirra á launum fyrir skrifin og Bragi tekur undir. „Við vorum á námslánum hluta tímans og að keppast við að finna okkur önnur verkefni. Svo skiptumst við á að vera Auður Laxness, förum í svuntuna á víxl,“ segir hann. „Það þarf að bera virðingu fyrir því sem hinn er að gera, þetta lítur ekki alltaf út fyrir að vera vinna. Stundum er maður bara að labba um íbúðina með te og dæsa.“

Skrýtið og flókið að vera karlmaður

Austur - skáldsaga í 33 hlutum fjallar um Eyvind, félagslega einangraðan hagfræðing á fertugsaldri sem er í krísu. Bragi segir þessa karlakrísu sem oft hefur verið fjallað um í listum ekki vera nýja af nálinni og að hún sé líklega ekki að fara neitt. „Þessi krísa hefur verið til staðar í allavega 40 ár. Það mátti lesa um hana í 101 Reykjavík og það má lesa um hana hér. Það er kannski ekki erfitt að vera karlmaður en það er skrýtið og flókið. Mig langaði að taka þessa klisju, karlinn á þessum aldri og fara í gegnum þessi þrjú svið, Reykjavík, sveitarómansinn og senda hann á sjó. Ég tek klisjuna og keyri hana alla leið.“

Sjómenn líka drullusokkar og fantar

Bragi, sem er sonur Sigurðar Páls Jónssonar útgerðarmanns og þingmanns, er alinn upp við sjómannslífið en segir að það sé alls ekki fyrir sig. „Það eru rosalega sérstakar týpur sem fara á sjó og finnst það gaman,“ segir hann en hann var aðeins átta ára gamall þegar hann tilkynnti föður sínum að þetta ætlaði hann ekki að leggja fyrir sig.

„Það er mikill hetjuljómi yfir sjómennsku og þeir eru töffarar í augum margra. Við erum með sérhátíð fyrir þá, sjómannadaginn, en í mínum augum eru sjómenn líka bara drullusokkar og fantar,“ segir Bragi sem hefur aldrei upplifað eins mikið einelti og á sjónum og og heldur aldrei eins mikinn einmanaleika. „Þú ert fastur með þessum mönnum vikum saman og þetta eru ekki allt frábærar manneskjur,“ segir hann.

Nafnið kom á undan titlinum

Sjórinn spilar líka stóra rullu í Svínshöfði en einn hlutinn af þremur gerist á eyju á Breiðafirði þar sem sjórinn er alltumlykjandi. „Ég er sjálf alin upp á landi og sá aldrei til sjávar,“ segir Bergþóra.

Sagan er fjölskyldusaga og segir meðal annars frá því hvernig eldri maður sem er utangarðs í samfélaginu fær viðurnefnið Svínshöfuð, frá kínverskum mæðginum sem koma til Íslands á tíunda áratugnum og einnig kynnast lesendur konu sem býr í einbýlishúsi í Kópavogi. „Nafnið kom til mín á undan innihaldinu og það varð pínu óljóst hvort þetta yrði lokatitillinn því það var ótti um að það þætti svo gróft að það gæti stuðað. En ég er mjög ánægð með hann,“ segir hún. Í bókarýni Maríönnu Clöru Lúthersdóttur um Svínshöfuð er henni lýst sem margslunginni og átakanlegri fjölskyldu þar sem bókarýnir segir meðal annars að með bókinni stökkvi höfundur fram sem fullskapaður skáldsagnahöfundur.

Reyktu sígarettur og hötuðu allt

Þau segjast ekki vera í mikilli samkeppni þó að bækur þeirra beggja keppist um að rata í flesta jólapakka ársins enda séu þau mestu aðdáendur hvort annars. Bragi segir að fyrsta bók Bergþóru, Daloon dagar, sé til dæmis hans uppáhalds ljóðabók og hafi lengi verið. „Við kynntumst í ritlist í Háskólanum og ég er í raun „fanboy“ sem komst í feitt.“

Parið var á síðbúnu gelgjuskeiði að eigin sögn þegar þau hittust fyrst 25 ára gömul. „Við vorum saman í að reykja sígarettur og hata allt,“ rifjar hún upp. „Við urðum fljótt góðir vinir, ég las yfir fyrir hann og hann fyrir mig.“

Ýmislegt er á döfinni hjá parinu í kringum hátíðirnar og nokkuð ljóst að þetta verða ekki rólegustu jól fjölskyldunnar sem munu einkennast af miklu leyti af upplestrum og brjóstagjöf. „Greindarskorti af svefnleysi,“ spáir Bragi og Bergþóra skýtur inn í: „Og fleiri kaffibollum.“

Gísli Marteinn Baldursson og Björg Magnúsdóttir ræddu við Bergþóru og Braga Pál í Morgunkaffinu á Rás tvö. Hægt er að hlýða á allt viðtalið í spilaranum efst í fréttinni.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Margslungin og átakanleg fjölskyldusaga

Bókmenntir

Innra með leynast bæði gerandi og þolandi

Menningarefni

Kúrekar Valkyrjunnar