Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Skiptar skoðanir um sameiningar á Vestfjörðum

Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RÚV
Skiptar skoðanir voru um sameiningu sveitarfélaga á haustþingi Fjórðungssambands Vestfirðinga á Hólmavík um helgina. Formaður sambandsins lagðist gegn ályktun þar sem lögþvingaðri sameiningu er mótmælt. Ályktunin var samþykkt með naumum meirihluta.

Í ályktuninni segir að Vestfirðingar leggist alfarið gegn lögþvingaðri sameiningu sveitarfélaganna og þeirri aðferðarfræði sem boðuð sé til að knýja á um sameiningu minni sveitarfélaga. Hafdís Gunnarsdóttir, formaður Fjórðungssambandsins, hvatti fólk til að greiða atkvæði gegn ályktuninni.

„Það er bara prinsippmál hjá mér að Fjórðungssambandið taki ekki þátt í umræðu varðandi sameiningar. Önnur landshlutasamtök hafa ekki verið að álykta um þessi mál og hafa haldið sig algjörlega frá þeim. Það er sveitarfélaganna að taka slaginn eftir þeirra afstöðu,“ segir hún.

Hafdís segir jafnframt að sameiningarmál hafi legið þungt yfir umræðum helgarinnar, sem áttu að snúast um samvinnu sveitarfélaganna.

„Ef þessi þingsályktunartillaga væri ekki frammi akkúrat núna, þá held ég að sveitarstjórnarfólk hefði getað nálgast þessa hugmynd um samvinnu og samstarf miklu meira. Mér finnst margir vera farnir svolítið út í horn, út í ákveðna vörn, og ég hef alveg skilning á því, og þá komumst við ekki á það stig að ræða samvinnu,“ segir hún.