Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Skipstjóri ákærður fyrir manndráp af gáleysi

24.06.2017 - 12:13
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Skipstjóri hjólabáts, sem var bakkað á kanadíska fjölskyldu við Jökulsárlón í ágúst fyrir tveimur árum, með þeim afleiðingum að kona lést, hefur verið ákærður fyrir manndráp af gáleysi. Hann hafði ekki réttindi til að stýra farartækinu og á yfir höfði sér allt að sex ára fangelsi.

Konan sem lést hafði verið á ferðalagi um Suðurland ásamt eiginmanni sínum og syni þegar slysið varð. Þau höfðu ferðast með þyrlu og stóðu og horfðu á hana lenda á mel sem er við malarplanið við Jökulsárlón.  Á sama tíma var skipstjóri hjólabáts nýbúinn að sækja farþega  á vestanverðu planinu og var að bakka ökutækinu í austur. Hann ætlaði síðan að snúa farartækinu við og aka áfram í norðvestur, þaðan sem hjólabátunum er ekið út á lónið. 

Í skýrslu rannsóknarnefndar samgönguslysa um slysið sem birt var í gær segir að skipstjórinn hafi bakkað á fjölskylduna sem sneri baki í farartækið. Nefndin segir að fjölskyldan hafi ekki orðið vör við hjólabátinn vegna hávaða frá þyrlunni og þar sem báturinn gaf ekki frá sér viðvörunarhljóð þegar bakkað var. Fjölskyldan féll öll við og varð konan undir afturhjóli bátsins og lést samstundis.

Þingfesting á mánudaginn

Í skýrslu rannsóknarnefndarinnar kemur fram að skipstjóri bátsins hafi ekki haft réttindi til að stýra honum. Hann hafi haft réttindi til að stjórna skipum sem eru styttri en tólf metrar að lengd, en ekki bátum á stærð við hjólabátinn.

Þá hafi skipstjórinn og annar starfsmaður ekki gengið úr skugga um hvort hættulaust væri að aka hjólabátnum aftur á bak. Loks hafi sérstök bakkmyndavél í bátnum verið biluð.

Lögreglustjórinn á Suðurlandi hefur haft málið til rannsóknar undanfarin tvö ár, en hefur nú ákært skipstjórann fyrir manndráp af gáleysi. Málið verður þingfest í Héraðsdómi Austurlands á mánudaginn. Hinn ákærði er 24 ára gamall, fæddur árið 1993. Hann var því 22 ára þegar slysið varð. Verði hann fundinn sekur á hann yfir höfði sér allt að sex ára fangelsi.

Lögmaður fjölskyldunnar sagði í samtali við fréttastofu í morgun að löng rannsókn málsins hafi tekið á fjölskylduna. Spurður sagði hann að í málinu séu gerðar kröfur um skaðabætur. Hann vildi ekki tjá sig um málið að öðru leyti að svo stöddu.

Ekki hefur náðst í Einar Björn Einarsson, framkvæmdastjóra Jökulsárlóns ehf., fyrirtækisins sem skipstjórinn starfaði hjá þegar slysið varð, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.