Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Skimun ÍE bendir til að veiran sé ekki útbreidd

15.03.2020 - 11:13
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Vilhjálmur Þór Guðmun - RÚV
Fyrstu niðurstöður skimunar hjá Íslenskri erfðagreiningu benda til þess að um eitt prósent þeirra sem komu í skimun í gær sé smitað af COVID-19. Eitt prósent þjóðarinnar jafngildir 3.600 manns. Þetta kom fram hjá Þórólfi Guðnasyni sóttvarnalækni í Silfrinu í dag. Hann telur þetta til marks um að veiran sé ekki útbreidd.

Þórólfur ítrekar að rýna þurfi betur í þessar niðurstöður, en þetta gefi vísbendingu um að veiran sé ekki orðin útbreidd í samfélaginu og að ráðstafanir yfirvalda hafi borið árangur. Greiningar á þeim sem farið hafa í sóttkví sýna að tíu prósent þeirra séu smituð.

Framan af hefur verið einblínt á fólk sem er að veikjast og kemur frá áhættusvæðum. „Þá kemur það í ljós að um það bil tíu prósent af sýnunum sem við höfum verið að taka hafa sýnt þessa veiru og tíu prósent einstaklinganna verið sýktir. Hvort að þetta sé niðurstaðan í samfélaginu öllu? Fyrstu niðurstöður [ÍE - innskot fréttamanns] sýna að það er alls ekki svo hér. Það virðist vera að það sé kannski um eitt prósent af þeim úti í samfélaginu sé með þessa veiru. En við eigum eftir að skoða þetta betur.“

Mynd: Skjáskot / RÚV

Þórólfur segir að það verði þó að skoða niðurstöður Íslenskrar erfðagreiningar betur og að enn sé bara búið að skima fyrsta hóp þeirra þúsunda sem skráðu sig. Þá benti hann á að þótt svo skimun á einum tíma gefi til kynna að viðkomandi sé ekki sýktur geti seinna próf leitt veikindi í ljós, það er vegna lengdar meðgöngutíma sjúkdómsins.

Þórólfur segir þetta sýna mátt aðferðanna sem hefur verið beitt hérlendis. „Við höfum lokað fólk af sem er veikt. Við höfum fundið þá sem hafa hugsanlega smitast og lokað þá líka af. Við vitum að þær aðgerðir okkar hafa skilað árangri. Um það bil helmingur þeirra sem hafa greinst hér hafa verið í sóttkví og veikst. Þannig að við vitum að þessar aðgerðir hafa komið í veg fyrir mjög mörg smit í samfélaginu.“

Þetta segir hann hafa hægt á útbreiðslu. „Þannig að þetta sýnir það að veiran er held ég ekki útbreidd hér í samfélaginu og það er gott. Það er akkurat það sem við vildum sjá og við viljum halda því þannig. Við viljum að þetta verði mjög hægur faraldur í samfélaginu þannig að heilbrigðiskerfið og aðrir ráði vel við þetta.“

Fréttin hefur verið uppfærð.