Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Skiluðu ráðherra skýrslu um miðhálendisþjóðgarð

Mynd með færslu
 Mynd: Stjórnarráðið - RÚV
Nefnd um stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands skilaði Guðmundi Inga Guðbrandssyni, umhverfis- og auðlindaráðherra, í dag skýrslu sinni. Í nefndinni sátu fulltrúar allra þingflokka á Alþingi, Sambands íslenskra sveitarfélaga, umhverfis- og auðlindaráðuneytis og forsætisráðuneytis.

Í skýrslunni koma fram tillögur um hvernig skuli standa að stofnun slíks þjóðgarðs. Gert er ráð fyrir að umhverfisráðherra leggi fram frumvarp í vor sem byggist á tillögum nefndarinnar. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis og auðlindaráðherra segir að horft hafi verið til þeirra gagnrýnisradda sem komu fram frá sveitarfélögum og orkufyrirtækjum í umsagnarferlinu.

„Ef maður horfir á heildarmyndina þá er þetta stærsta framlag Íslands til náttúruverndar fyrr og síðar. Sagan og menningin sem við eigum á hálendinu, til dæmis þjóðleiðin sem lá þar eftir að Alþingi var stofnað á Þingvöllum er gríðarlega dýrmæt.“ sagði Guðmundur í samtali við fréttastofu.

Nefndin hóf störf vorið 2018 og vinnur út frá stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þar sem kveðið er á um að koma skuli á fót þjóðgarði á miðhálendi Íslands og það verði gert í samráði þverpólitískrar þingmannanefndar. Í skýrslunni er lagt til að hálendisþjóðgarður verði á landsvæði sem er í sameign þjóðarinnar, það er þjóðlendum og friðlýstum svæðum sem eru innan miðhálendisins.

„Hálendisþjóðgarður verður einstakur þjóðgarður á miðhálendi Íslands þar sem er að finna ein stærstu óbyggðu víðerni Evrópu. Ég vil þakka nefndinni þeirra frábærlega vel unnu störf sem færa okkur nær því marki að stofna þjóðgarð á miðhálendinu með öllum þeim tækifærum sem því fylgja,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra.

Mörk miðist við þjóðlendur og þegar friðlýst svæði

Í skýrslunni segir meðal annars að almenn mörk þjóðgarðsins miðist við þjóðlendur og friðlýst svæði á miðhálendinu, þar með talinn Vatnajökulsþjóðgarð. Hins vegar er gert ráð fyrir að núverandi verndarstig og mörk Vatnajökulsþjóðgarðs haldist sem slík innan stærri hálendisþjóðgarðs.  

Þá segir nefndin að ljóst sé að við jaðra þeirra marka sem hún leggur til séu ýmis áhugaverð svæði sem gætu orðið hluti af þjóðgarðinum vilji eigendur þeirra það.  

Skýrsluna má lesa hér. 

Við störf nefndarinnar var lögð áhersla á náið samráð við sveitarfélög og helstu hagsmunaaðila. Í ágúst 2018 hélt nefndin tíu fundi víðsvegar um landið þar sem meðal annars var rætt við öll þau 24 sveitarfélög sem bera skipulagsábyrgð á miðhálendinu, eiga þar upprekstrarréttindi eða aðkomu að Vatnajökulsþjóðgarði sem verður hluti af hinum nýja þjóðgarði. Auk þess voru í janúar 2019 haldnir fundir um land allt með sömu sveitarfélögum sem og hagsmunaaðilum sem þau sjálf kölluðu til. Þá voru opnir kynningarfundir haldnir í Reykjavík, auk þess sem nefndin kynnti vinnu sína jafnóðum í samráðsgátt stjórnvalda. Alls bárust 122 umsagnir sem komu að miklu gagni við vinnu nefndarinnar. Allir fulltrúar nefndarinnar skrifuðu undir skýrsluna að frátöldum fulltrúa Miðflokksins.

Mynd með færslu
Fyrirhuguð mörk þjóðgarðs á miðhálendinu samkvæmt tillögum nefndarinnar.