Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Skilti á íslensku í stað umferðarljósa

01.06.2016 - 12:24
Mynd með færslu
 Mynd: Sigurður Ægisson - Siglfirdingur.is
Mynd með færslu
 Mynd: Sigurður Ægisson - Siglfirdingur.is
Búið er að skipta um aðvörunarskilti í Múlagöngum við Ólafsfjörð, sem varar vegfarendur í göngunum við umferð sem kemur frá Ólafsfirði. Þeir sem keyra í áttina frá Ólafsfirði hafa forgang og því þurfa þeir sem eru í göngunum að víkja við enda þeirra, sé bíll að koma á móti. Ekki er þó hægt að sjá hvort bíll sé að koma inn, því endi ganganna er í beygju.

Því hafa vegfarendur hingað til þurft að treysta á umferðarljós, en gult blikkandi ljós gaf til kynna að óhætt væri að fara áfram og út úr göngunum, en rautt ljós að bíll væri að koma inn í göngin. Nú hafa þessi ljós verið tekin niður og í staðinn er komið upp skilti, sem á stendur: Stop. Bíll á móti. 

Aðeins á íslensku

Athygli hefur vakið að skiltið skuli einungis vera á íslensku en upphaflega var skiltið merkt: Varúð. Bíll á móti. Sóknarpresturinn á Siglufirði, Sigurður Ægisson, heldur úti vefnum siglfirdingur.is og greinir þar frá breytingunni og uppákomu sem varð, þegar hann mætti erlendum ferðamönnum sem kváðust ekki hafa skilið hvað stóð á skiltinu. Í framhaldinu hafði Sigurður samband við Vegagerðina og spurði hvers vegna skiltið hefði verið gult en ekki rautt og hvers vegna það væri á íslensku. Í framhaldinu var skiltinu breytt að nýju, liturinn á því gerður rauður og textanum breytt þannig í að stað orðsins „varúð" er komið inn enska orðið „stop." Neðri textinn er þó áfram á íslensku.

Góð reynsla

Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni var skiltið sett upp til að koma því betur til skila til vegfarenda hvað framundan væri. Slíkt væri erfiðara með umferðarljósum. Þá sé íslenska það tungumál sem Vegagerðin notist við til að koma upplýsingum til vegfarenda, en ekki enska. Réttilega hefði verið bent á að fyrsta skiltið sem hefði verið sett upp hafi ekki verið nægjanlega vel skiljanlegt fyrir erlenda ferðamenn og því hafi bæði litnum og orðum verið breytt. Slík skilti eru einnig í Oddskarðsgöngum og Breiðdalsgöngum og hafa reynst vel. Þau eru að vísu aðeins á íslensku og gul að lit. 

 

Rögnvaldur Már Helgason
Fréttastofa RÚV