Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Skilríki Birnu fundust um borð í Polar Nanoq

Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd - RÚV
Samkvæmt heimildum fréttastofu fundust skilríki Birnu Brjánsdóttur við leit lögreglu í grænlenska togaranum Polar Nanoq. Skilríkin eru talin hafa fundist í ruslafötu um borð í togaranum. Tveir grænlenskir karlmenn, sjómenn á togaranum, hafa setið í gæsluvarðhaldi grunaðir um að hafa ráðið Birnu bana.

Lík Birnu fannst við Selvogsvita í fyrradag og var krufið í gær. Lögregla verst allra fregna af bráðabirgðaniðurstöðum eftir krufninguna og hver möguleg dánarorsök Birnu hafi verið.

Annar maðurinn ók á brott

Lögregla telur víst að Birnu hafi verið ráðinn bani í rauðum bílaleigubíl sem tvímenningarnir höfðu til umráða en blóð úr Birnu fannst í bílnum. Enn er beðið niðurstöðu úr rannsókn á fleiri lífsýnum sem tekin voru úr fatnaði og öðrum munum sem lögregla lagði hald á við leit í Polar Nanoq. 

Bíll tvímenninganna sást í eftirlitsmyndavélum við Laugaveg morguninn sem Birna hvarf. Næst sést til bílsins á hafnarsvæðinu í Hafnarfirði, þar sem skipverjarnir sjást stíga út úr bílnum og spjalla saman um stund þar til annar þeirra fer um borð í Polar Nanoq og hinn fer aftur í bílinn og ekur á brott. Bíllinn sást svo aftur í eftirlitsmyndavélum þar sem skór Birnu fundust.

Yfirheyrðir á grænlensku

Tvímenningarnir verða yfirheyrðir í dag en ekki hefur verið ákveðið hvort yfirheyrslurnar fara fram á Litla-Hrauni, þar sem mennirnir hafa verið í einangrun, eða á lögreglustöðinni við Hverfisgötu. Þeir hafa ekki verið yfirheyrðir í þrjá daga. Yfirheyrslurnar fara fram á grænlensku, sem er móðurmál mannanna, með aðstoð túlks.

Hæstiréttur staðfesti í gær tveggja vikna gæsluvarðhaldsúrskurð Héraðsdóms Reykjaness yfir tvímenningunum en lögregla fór fram á fjögurra vikna gæsluvarðhald vegna rannsóknarhagsmuna og kærði niðurstöðu héraðsdóms til Hæstaréttar.

Hátt í þrjú þúsund manns hafa boðað komu sína á sérstaka minningarstund fyrir Birnu á laugardaginn. Sérstök Facebook síða hefur verið stofnuð vegna atburðarins.

Búist er við að Polar Nanoq leggi úr höfn í Hafnarfirði í dag en landað var úr skipinu í gær eftir að lögregla gaf heimild til þess.