Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Skilaboð um breytta tíma ef af verður

Mynd: RÚV / RÚV
Það verða söguleg tíðindi og ákveðin skilaboð inn í samfélagið um breytta tíma ef stjórnarmyndun Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins, verður að veruleika. Þetta segir Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, þegar fyrir liggur að þingflokkur VG hefur samþykkt að hefja formlegar stjórnarmyndunarviðræður. Hún ítrekar fyrri orð um að mikilvægt sé að koma á pólitískum stöðugleika. Um leið verði að auka samstarf stjórnar og stjórnarandstöðu.

„Það er vilji til þess að ráðast í slíkar formlegar viðræður eins og við áttum í formlegum viðræðum í síðustu viku við aðra flokka,“ sagði Katrín í viðtali við Hauk Holm fréttamann að loknum þingflokksfundi Vinstri-grænna. „Ég hef lagt á það áherslu frá því fyrir kosningar að þessar kosningar snúist um stóru málin í íslensku samfélagi, uppbyggingu samfélagslegra innviða. Við höfum talað hér um heilbrigðiskerfið í talsvert langan tíma, menntakerfið. Við höfum talað um kjör öryrkja og aldraðra. Ég hef sagt það líka að við séum reiðubúin að leiða ríkisstjórn um þessi stóru mál, ásamt auðvitað ýmsum öðrum áherslumálum sem upp kunna að koma og það sé mikilvægt að koma hér á pólitískum stöðugleika. Það eru mín rök fyrir því að ég vil láta á þetta reyna eins og ég vildi láta reyna á fjögurra flokka stjórn sem mitt fyrsta val. Svo verðum við bara að sjá hvað kemur út úr því og hvort næst saman.“

Umboðið skipti ekki öllu máli

„Það er enginn með umboð til að leiða formlegar viðræður. Það sem ég sagði hér áðan er að við erum reiðubúin að leiða ríkisstjórn. En viðræður geta auðvitað farið fram hvort sem þær eru undir forystu einhvers eins eða milli þessara flokka.“

Muntu fara fram á að fá umboðið?

„Mér finnst umboðið ekki skipta öllu máli meðan slíkar viðræður eru í gangi satt að segja.“

Katrín svaraði ekki hvort samkomulag væri milli flokkanna þriggja um að Vinstri græn myndu leiða næstu ríkisstjórn ef saman næst. Hún sagði formlegar viðræður ekki hafnar og niðurstöður ekki liggja fyrir. „Það hefur margt borið á góma. Ég held að stjórnmálunum sé ekki mikill greiði gerður með því að endursegja samtöl sem ekki er kominn botn í. Ég legg áherslu á það í þessu sem öðru að umræðan um þessi mál sé ekki niðri í skotgröfunum. Að fólk reyni að nálgast þetta með málefnalegum hætti. Það finnst mér vera stóra málið. Það er það sem mér finnst vera ákall um úti í samfélaginu.“

Skilaboð um breytta tíma ef af verður

Skili umræðurnar árangri verður stjórnarmyndun lögð undir dóm flokksmanna, í þingflokki og flokksráði Vinstri grænna. „Það eru þær stofnanir flokksins sem á endanum ákveða þetta, en ekki ég.“

„Auðvitað eru það söguleg tíðindi ef þetta tækist. Það væru ákveðin skilaboð inn í samfélagið um breytta tíma. Þetta snýst ekki bara um þessa flokka. Þetta snýst um breiðari samstöðu á Alþingi. Þetta snýst um aukið samstarf við stjórnarandstöðu. Það eru hlutir sem skipta mig alveg jafn miklu máli í samskiptum við þessa flokka sem og alla aðra flokka.“