Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Skilaboð sögð varpa ljósi á leyndarhyggjuna í Ischgl

epa08293578 (FILE) - Tourists enjoy a sunny winter day in front of a restaurant at a ski resort in St. Anton am Arlberg, Austria, 12 January 2012 (reissued 14 March 2020). According to reports, the Austrian government has put popular touristic areas, Heiligenblut am Grossglockner, Paznautal, including Ischgl, and St. Anton under quarantine amid the ongoing Coronavirus crisis.  EPA-EFE/STR AUSTRIA OUT
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Tölvupóstar og smáskilaboð eru sögð varpa ljósi á hvernig embættismenn og ferðaþjónustufyrirtæki á austurríska skíðasvæðinu Ischgl reyndu að halda því leyndu að kórónuveiran hefði stungið sér þar niður. Læknir, sem var kallaður til að skima fyrir veirunni, fékk eingöngu að taka sýni úr nokkrum ítölskum ferðamönnum og konunni sem þreif herbergi nokkurra íslenskra ferðamanna. 2.500 ferðamenn hafa haft samband við austurrísk neytendasamtök vegna málsóknar gegn ráðamönnum í Ischgl.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í ítarlegri umfjöllun danska ríkisútvarpsins.  Mál Ischgl hefur vakið heimsathygli. Talið er að rekja megi sýkingar hundruð ferðamanna þangað og hafa ráðamenn verið sakaðir um að hafa brugðist of seint við eða jafnvel hunsað viðvaranir sem komu fyrst frá íslenskum heilbrigðisyfirvöldum. 

Tóku sýni hjá konu sem þreif herbergi Íslendinga

Umfjöllun DR er byggð á fréttum nokkurra austurrískra staðarmiðla. Þar kemur meðal annars fram að 7. mars eða tveimur dögum eftir að Ísland setti Ischgl á lista yfir hááhættusvæði hafi heilbrigðisyfirvöld í Tíról fengið lækna til að skima fyrir veirunni í Ischgl. „Við áttum eingöngu að skima hjá fólki sem yfirvöld höfðu valið sérstaklega,“ segir læknirinn í samtali við staðarmiðil. 

Tekin voru sýni hjá nokkrum ferðamönnum frá Ítalíu og svo konu sem þreif herbergi þeirra Íslendinga sem höfðu greinst með veiruna.

DR segir læknana hafa tekið málin í í sínar hendur og ákveðið að taka sýni úr fólki sem þeir völdu handahófskennt til að athuga hvort það væri eitthvað samfélagssmit. Við þá skimun kom í ljós að barþjónn á vinsælum skemmtistað sem heitir  Kitzloch var með COVID-19. „Á þeim tímapunkti hefði átt að loka Ischgl, við vorum allir sammála um það,“ segir læknirinn. 

„Verður búið eftir viku eða tíu daga“

Daginn eftir sendu yfirvöld frá sér yfirlýsingu þar sem þau sögðu mjög ólíklegt að gestir staðarins hefðu smitast.  Tveimur dögum seinna hafði honum verið lokað.  Næsta dag var öllum börum lokað og síðan liðu tveir daga þangað til skíðasvæðið var sett í sóttkví.

DR segir að ferðaþjónustufyrirtæki hafi mikil ítök  og það sýni sms sem yfirmaður efnahagsmála í Tíról sendi eiganda skemmtistaðarins Kitzloch. Þar biður hann eigandann um að loka staðnum því annars verði Ischgl sett á lista yfir bannsvæði hjá þýskum yfirvöldum. Slíkt myndi valda óbætanlegum skaða fyrir ímynd Ischgl.  „Veltu þessu fyrir þér og vertu skynsamur. Eftir viku eða tíu daga verður þetta allt yfirstaðið.“

2.500 ferðamenn haft samband vegna hópmálsóknar

Þá segir DR að vísbendingar séu um að eigendur ferðaþjónustufyrirtækja hafi fengið að vita af því fyrirfram þegar austurrísk yfirvöld ákváðu að setja Ischgl í sóttkví þann 13. mars. Öllum starfsmönnum var sagt upp og ferðamenn beðnir um að hafa sig á brott án þess að skimað væri fyrir COVID-19.  Í umfjöllun norska blaðsins Dagbladet kemur fram að 17 prósent sýkinga í Noregi megi rekja til Austurríkis. DR segir jafnframt að samband ferðaþjónustufyrirtækja í Ischgl hafi beðið eigendur hótela um að ræða ekki við fjölmiðla né senda þeim myndir eða myndskeið.

Sakamálarannsókn er nú hafin á því hvort því hafi verið haldið leyndu að starfsmaður á ónefndum skemmtistað í Ischgl hafi greinst með kórónuveiruna í byrjun febrúar. Þá eru austurrísk neytendasamtök að undirbúa hópmálsókn gegn yfirvöldum í Tíról fyrir að bregðast of seint við farsóttinni. Fram kemur í austurrískum fjölmiðlum í morgun að 2.500 ferðamenn hafi þegar haft samband.