Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Skila undirskriftum ekki fyrir atkvæðagreiðslu

26.08.2019 - 09:31
Mynd með færslu
 Mynd: Kristján Þór Ingvarsson - RÚV
Undirskriftum þeirra Sjálfstæðismanna sem krefjast atkvæðagreiðslu um þriðja orkupakkann verður ekki skilað áður en Alþingi greiðir atkvæði um málið. Jón Kári Jónsson, formaður félags Sjálfstæðismanna í Hlíða- og Holtahverfi í Reykjavík, sem stendur að söfnuninni, segir það ekki þjóna neinum tilgangi þar sem forysta flokksins ætli ekki að taka undirskriftirnar til greina.

Á opnum fundi í Valhöll fyrr í mánuðinum hafi komið fram að undirskriftirnar yrðu í besta falli hafðar til hliðsjónar. Áður stóð til að ljúka söfnuninni í kringum 25. ágúst. Jón Kári segir að nú standi til að halda henni áfram þar til eftir að Alþingi hefur afgreitt innleiðingu þriðja orkupakkans. 

Telur ekki of seint að skila eftir afgreiðslu Alþingis

Aðspurður segir hann ekki of seint að skila undirskriftunum þá. „Það skiptir máli ef þúsundir flokksmanna senda þau skilaboð að þeir vilji fá að kjósa um málið,“ segir hann. Ljóst sé að flokksforystan, sem er fylgjandi innleiðingu þriðja orkupakkans, skipti ekki um skoðun. „En það þyngist sífellt brúnin á þeim flokksmönnum sem eru á móti þessu. Þetta er ekki búið mál.“ 

Markmiðið var að safna 5.000 undirskriftum

Samkvæmt skipulagslögum Sjálfstæðisflokksins geta landsfundur, flokksráð eða miðstjórn ákveðið að leggja málefni til ráðgefandi atkvæðagreiðslu meðal flokksmanna. Miðstjórninni er skylt að láta fara fram almenna kosningu meðal flokksmanna um málið ef yfir 5.000 félagsmenn krefjast þess. 300 undirskriftir verða að koma frá hverju kjördæmi. Það var því markmið Jóns Kára að safna 5.000 undirskriftum. Ekki fæst uppgefið hversu margar hafa safnast. 

Stefnt er að því að ræða þingsályktunartillögu um orkupakkann á Alþingi næsta fimmtudag, 29. ágúst, og þrjú tengd mál næsta dag. Atkvæðagreiðsla verður svo mánudaginn 2. september.