Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Skemmtiferðaskipum fjölgar, hættan eykst

12.03.2019 - 10:08
Mynd:  / 
Skemmtiferðaskipum sem sigla á norðurslóðum hefur fjölgað mjög mikið á undanförnum árum. Þó að ekki séu miklar líkur á slysum er nauðsynlegt að hægt sé að bregðast við ef slys verður. Á næsta ári stendur Landhelgisgæslan fyrir æfingu, sem beinist að björgun og leit og einnig viðbrögðum við mengunarslysi.

Skipaumferð hefur aukist mikið samfara hlýnun jarðar og bráðnunar íss á norðurhveli. Þó að nokkuð sé í að svokölluð norðuvesturleið og einnig norðausturleið milli Atlantshafs og Kyrrahafs verði opin fyrir almenna skipaumferð hefur skemmtiferðaskipum fjölgað nokkuð hratt á þessum slóðum. Spáð er að 2022  verði rösklega hundrað skemmtiferðaskip í reglulegum siglingum um norðurslóðir.  Sífellt fleiri skip eru sérsmíðuð til að kljást við ísinn og þau færa sig stöðugt norðar á bóginn. Við þetta bætist að fiskveiðiflotinn er líka að færa sig í norður. Landhelgisgæslan og sambærilegar stofnanir óttast nú mest stórslys vegna fjölgunar skemmtiferðaskipa

„Líkunar eru ekki miklar en afleiðingarnar gætu orðið miklar ef að slík slys yrðu."

Segir Auðun Kristinsson, verkefnastjóri aðgerðasviðs hjá Landhelgisgæslu Íslands. Ef slys verður eru miklar líkur á að það verði fjarri byggðu bóli og því um langan veg að fara fyrir björgunarsveitir. Auðunn segir að öll ríki á norðurslóðum séu að byggja upp viðbúnað og það kalli á samstarf.

„Það er alveg ljóst að ekkert okkar unnið að svona málum eða leyst svona mál ein og sér. Við erum að auka starfs okkar á milli til að geta kallað til nágrannaþjóðir okkar. Við erum að skipaleggja verklagið hvernig við getum unnið saman, fjarskipti og hvernig við boðum hvert annað. Um það snýst samstarfið, að þegar eitthvað kemur fyrir getum við unnið sem smurð vél," segir Auðunn.

Mynd með færslu
 Mynd:
Auðunn Kristinsson

Langar vegaleiðir

Athygli margra beinist að því hvernig eigi og hvernig mögulegt er að bregðast við slysum langt norður í hafi, slysum sem geta haft í för með sér bæði mannskaða og mengun. Í lok janúar var verkefninu Arcsar - Arctic Security and Emergency Preparendness formlega hleypt af stokkunum. Evrópusambandið styrkir verkefnið um tæpar 500 milljónir króna. Að því standa 13 ríki og að auki 8 stofnanir og háskólar. Yfirstjórn þess er í höndum aðalbjörgunarmiðstöðvarinnar í Norður-Noregi. Landhelgisgæslan tekur þátt í verkefninu sem miðast meðal annars að því að leita að veikleikum í núverandi björgunarkerfi. Haldnar verða æfingar og ráðstefnur. En eru björgunarmiðstöðvar á norðurslóðum í stakk búnar að sinna stórslysum. Auðunn segir að í raun sé björgunarkerfið mjög gott.

 „Staðreynd málsins er að þetta eru greiðarlegar vegalengdir og þetta er erfitt svæði veðurfarslega. Þannig að við erum alltaf að tala um langan tíma. Þetta snýst alltaf um það að styrkja samsamstarfi.  Þetta getur tekið tvo, þrjá, fjóra daga að fá aðstoð erlendis frá. Það er þetta sem við verðum ap byggja upp. Þannig að þegar eitthvað kemur upp þá séum við tilbúin. Meginbreytingin sem hefur orðið síðast liðin ár er að umferð skemmtiferðaskipa er að aukast. Spádómar um siglingar yfir norðurskautið hafa ekki gengið eftir nema að mjög litlu leyti," segir Auðunn.

Taka að sér formennsku á þessu ári

Landhelgisgæslan tekur líka þátt í samstarfi strandgæslna norðurslóða ríkjanna 8, Noregs, Svíþjóðar, Finnlands, Rússlands, Bandaríkjanna, Kanada, Danmerkur vegna Grænlands og loks Íslands. Um leið og Ísland tekur að sér formennsku í Norðurskautsráðinu á þessu ári tekur Landhelgisgæslan sér formennsku í samstarfi landhelgisgæslnanna, Arctic coastguard forum.

„Samhliða formennskunni munum við halda eina stóra björgunaræfingu hér á Íslandi og minni vinnustofur og ráðstefnur,“ segir Auðunn

Ráðgert er að æfingin hér beinist að leit og björgun og hugsanlega líka að viðbrögðum vegna mengunarslyss. Æfingin stendur yfir í eina viku. Í apríl verður efnt til vinnustofu hér á landi með útgerðum skemmtiferðaskipanna. Þetta er í fjórða sinn sem slíkur fundur er haldinn.

„Ég verða að segja að síðan við fórum að kynnast getu skemmtiferðaskipaútgerðanna þá erum við rólegri yfir því sem koma skal. Við sjáum að þau eru vel búin og með vel þjálfaðan mannskap. Þannig að þetta er tiltölulega öryggt en slysin geta orðið engu að síður.“

 

arnarph's picture
Arnar Páll Hauksson
Fréttastofa RÚV