Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Skemmtiferðaskip væntanleg í Skagafjörð

default
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Skagfirðingar gera ráð fyrir að taka á móti þremur skemmtiferðarskipum á Sauðárkróki næsta sumar. Fleiri skip hafa boðað komu sína þangað á næstu árum. Umsvif við höfnina hafa aukist til muna seinustu ár.

Frá 2015 hefur afli sem landað er aukist um tuttugu prósent á hverju ári á Sauðárkróki. Hann fer mestallur í vinnslu á Sauðárkróki eða er fluttur til vinnslu annars staðar. Hluti hans fer á fiskmarkað.

„Það eru auknar landanir hjá FISK seafood og síðan eru Dögun með rækjuverksmiðju hérna sem er að stækka. Svo hafa aðkomubátar verið að landa hérna meira en hefur verið, segir Dagur Þór Baldvinsson, hafnarstjóri Skagafjarðarhafna.

Sveitarfélagið Skagafjörður vinnur um þessar mundir að nýju deiliskipulagi fyrir höfnina til að mæta þessari miklu aukningu.
Formaður byggðarráðs Skagafjarðar fagnar þessum auknu umsvifum. Mikilvægt sé fyrir sveitarfélagið að fá tekjur í gegnum hafnarsjóð. Halda þurfi rétt á spilum til að framhald verði á vextinum.

Svo ætlið þið að fara að taka á móti skemmtiferðaskipum. Hvernig eruð þið í stakk búin til þess?

„Við erum ágætlega í stakk búin til þess teljum við. Það eru þrjú skip sem koma á næsta ári og 10 í heildina sem eru búin að boða komu sína á næstu árum“ segir Stefán Vagn Stefánsson, formaður bæjarráðs Sveitarfélagsins Skagafjarðar.

 Stærri skemmtiferðaskip leggjast fyrst um sinn við akkeri utan við höfnina. Kostnaður við framkvæmdir liggur ekki fyrir.Gert er ráð fyrir að útbúa aðstöðu fyrir stór skemmtiferðaskip svo þau geti lagst að bryggjunni. Þá þarf einnig að tryggja þeim aðgang að rafmagni.

„Það er eitt af stóru verkefnunum sem við þurfum að fara í. Hvort að við eigum ekki leið til þess. Þetta er gríðarlegt umhverfismál, eins og fram hefur komið fram í fjölmiðlum, að reyna að tryggja þessum skipum öllum hringinn í kringum landið raforku og við munum reyna það. Það hefur verið vesen að fá rafmagn hérna inn á Sauðárkrók. Raforkuöryggi hefur verið ótryggt. Hins vegar erum verið í vinnu núna með jarðstreng  frá Varmahlíð inn á Sauðárkrók sem mun vonandi leysa það,“ segir Stefán Vagn.