Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Skemmtanahald til fyrirmyndar

Mynd með færslu
 Mynd: Ólöf Ragnarsdóttir - Aðsend mynd
Mikill fjöldi fólks er kominn til Vestmannaeyja þar sem þjóðhátíð fer nú fram. Pétur Steingrímsson, varðstjóri hjá lögreglunni í Vestmannaeyjum, segir nóttina hafa gengið vel fyrir sig. Hann segist aldrei hafa séð annan eins fjölda í dalnum og í gær.

Pétur segir að engin stór mál hafa komið upp í nótt en sex gestir muni þó vakna upp í fangaklefa í dag. Þeir hafi verið færðir þangað ýmist vegna ölvunar, fíkniefnamála eða líkamsárásar. En tvær líkamsárásir voru kærðar eftir nóttina. Þá hafa alls 12 fíkniefnamál komið upp. Pétur segir veðrið leika við þjóðhátíðargesti, það sé blankalogn og fínasta veður. 

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu hefur allt verið rólegt. Þrír gistu í fangageymslu lögreglunnar í nótt en það er ekkert óvanalegt að sögn Jóhanns Karls Þórissonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns. Hátíðin Innipúkinn hófst í gær en samkvæmt Jóhanni Karli fór allt vel fram þar. 

Á Akureyri var allt með kyrrum kjörum samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni þar. Þar fara fram hátíðirnar, Ein með öllu og Íslensku sumarleikarnir. Að sögn lögreglunnar er margt fólk en ástand á verkefnum er á við hefðbundna helgi. Allir fangaklefar eru tómir og engin mál voru með eftirmál. 

Mikill fjöldi innlendra og erlendra ferðamanna er í umdæmi lögreglunnar á Suðurlandi. Þar hefur skemmtanahald verið til fyrirmyndar. Aðeins einn gisti í fangaklefa lögreglunnar í nótt. Lögreglan segir þó talsvert hafa verið af umferðarbrotum. Sá sem ók hraðast mældist á 176 kílómetra hraða. Hann var sviptur ökuréttindum á staðnum. 

Fréttin verður uppfærð.