Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Skellurinn nú mun léttbærari en árið 2008

09.03.2020 - 19:54
Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka. - Mynd: RÚV / RÚV
Hlutabréf um allan heim hrundu í verði í dag vegna mikillar lækkunar heimsmarkaðsverðs á olíu og ótta fjárfesta við útbreiðslu kórónaveirunnar. Gengi bréfa lækkaði í öllum skráðum félögum í íslensku kauphöllinni. Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, telur að þessi skellur nú verði mun styttri og léttbærari á Íslandi en sá sem dundi á í bankakreppunni árið 2008.

Jón Bjarki segir erfitt að segja til um það hvort hlutabréf haldi áfram að lækka í verði eða hvort markaðir taki við sér. „Góðu heilli, þá hefur orðið hlé á lækkunum á Bandaríkjamarkaði sem tók snarpa dýfu í upphafi. Hann er leiðandi markaður og gefur tóninn fyrir næsta sólarhringinn, að minnsta kosti,“ sagði Jón Bjarki í viðtali við Boga Ágústsson í beinni útsendingu í sjónvarpsfréttum.

Heimsmarkaðsverð á olíu lækkaði um þriðjung við upphaf viðskipta í morgun. Það hefur ekki lækkað svo mikið á einum degi frá upphafi Persaflóastríðsins 1991. Það rétti úr kútnum þegar líða fór á daginn en lækkunin hafði mikil áhrif víða.  

Hálfgert kalt stríð milli Sáda og Rússa

Útbreiðsla kórónaveirunnar leiddi til þess að það dró úr vöruframleiðslu, sérstaklega í Asíu, sem dró síðan úr þörfinni fyrir olíu. Olíuverð lækkaði og OPEC-ríkin ætluðu að bregðast við fyrir helgi með því að draga úr framleiðslu. Það samþykktu Rússar ekki, því þeir vildu sjá hvort kórónaveiran hefði jafn slæm áhrif og óttast var. Sádi-Arabía, sem er stærsti olíuútflytjandi heims, refsaði Rússum með því að auka framleiðslu og því hófst verðstríð sem Sádar leiða því enginn framleiðir olíu á jafn ódýran hátt og þeir. 

Oft hefur það verið þannig að lækkun á olíu hafi þau áhrif að hlutabréf hækki í verði, að sögn Jóns Bjarka. Lækkunin núna komi ekki til af góðu. „Hún er í raun vegna þess að spennan sem fylgdi minnkandi eftirspurn eftir olíu á alþjóðamarkaði hafði þau áhrif að auka spennuna á milli olíuframleiðsluríkjanna og það virðist vera komið svona einhvers konar kalt stríð á milli tveggja stórra framleiðenda þarna, Rússlands og Sádi-Arabíu og Sádi-Arabar eru staðráðnir í því að þvinga Rússa einhvern veginn að borðinu eða að minnsta kosti refsa þeim fyrir að hafa ekki tekið þátt í framboðstakmörkunum á föstudaginn,“ segir hann. 

Aðstæður allt aðrar nú en árið 2008

Gengi íslensku krónunnar hefur lækkað undanfarna daga en það hefur þó ekki verið fjarri því sem það hefur verið undanfarið ár, að sögn Jóns Bjarka. Hann telur að það sé ekki óeðlilegt í ljósi þess hversu mikil tíðindi hafi orðið og að ef til vill sé það ekki það versta sem gæti gerst svo lengi sem lækkunin verði tiltölulega hófleg. Það geri íslenska hagkerfið aðeins samkeppnishæfara sem gæti hjálpað til við að milda höggið. 

Aðstæður á Íslandi eru allt aðrar nú en þær voru árið 2008, segir Jón Bjarki, og því ástæða til bjartsýni varðandi það að áhrifin á hagkerfið verði mun minni nú en árið 2008. „Í fyrsta lagi þá höfum við tiltekna vissu um að þetta él gangi yfir, því sloti um síðir, öfugt við ástandið 2008. Við vitum að svona faraldrar koma og fara. Ferðaþjónustan í þeim löndum, þar sem fyrri faraldrar hafa hitt illa fyrir, hún hefur verið tiltölulega fljót að ná sér og þar fram eftir götunum.“

Í öðru lagi sé hagkerfið minna skuldsett og hægara að bregðast við og miklu minni hætta á dómínó-áhrifum vegna þess að heimili, fyrirtæki og hið opinbera standi miklu sterkar að vígi en fyrir tólf árum síðan. Í þriðja lagi hafi hið opinbera og Seðlabankinn mun meira svigrúm til að bregðast við aðstæðum nú en oft áður. „Þessir aðilar hafa meiri trúverðugleika, ríkið stendur vel. Seðlabankinn getur lækkað vexti töluvert og létt á fjármálalegum skilyrðum þannig að ég held að þrátt fyrir allt þá verði þetta styttri og léttbærari skellur heldur en þá var,“ segir Jón Bjarki um samanburð á stöðunni núna og í bankahruninu árið 2008. 

Dagurinn kallaður mánudagurinn svarti

Hlutabréf hríðféllu í kauphöllum um allan heim í morgun. Norskir fjölmiðlar lýstu deginum sem einum þeim versta í sögu norsku kauphallarinnar og svipaða sögu er að segja víðar, bæði í Evrópu og Asíu. Hlutabréfaviðskipti voru stöðvuð um stund í morgun á Wall Street í New York eftir að vísitölur féllu um rúm sjö prósent. Hér heima voru rauðar tölur hvert sem litið var. Úrvalsvísitalan lækkaði um þrjú og hálft prósent og gengi bréfa í sex fyrirtækjum lækkaði um meira en fimm prósent. Mánudagurinn svarti er á vörum marga greinenda erlendis en hann er einn sá versti frá fjármálakreppunni 2008.