Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Skatturinn kannar ferðaþjónustuna sérstaklega

27.06.2019 - 14:28
Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RUV.IS
Hópar á vegum Ríkisskattstjóra fara um landið í vettvangseftirlit í sumar. Áhersla er lögð á að kanna skráningar og stöðu ferðaþjónustufyrirtækja. Ábendingar frá aðilum vinnumarkaðarins eru kannaðar og starfssemi könnuð í öllum landsfjórðungum.

Ekki er búið að taka saman heimtur vegna eftirlitsins í ár en í fyrra voru gerðar 3.237 heimsóknir, lang flestar á höfuðborgarsvæðinu.

Hver eftirlitsferð stendur að jafnaði yfir í viku, að því er kemur fram á vef Ríkisskattstjóra. Áhersla er lögð á eftirlit með ferðaþjónustufyrirtækjum og sérstakar ferðir farnar með það að markmiði að kanna starfsemi tengda ferðaþjónustu.

Samtök ferðaþjónustunnar og Samtök atvinnulífsins hafa lagt áherslu á mikilvægi þess að skatturinn hafi virkt eftirlit, ekki síst til þess að jafna samkeppnisstöðu ferðaþjónustufyrirtækja. Verið er að kanna staðgreiðsluskil launa, tekjuskráningu og þess háttar. Einnig er verið að kanna aðbúnað í hópferðabílum, hvort bílar og bílstjórar hafi fullnægjandi skráningar og þess háttar.

Hópar ríkisskattstjóra munu hafa sérstakt eftirlit með bifreiðum tengdum ferðaþjónustu í samstarfi við umferðarlögregluna. Þar verður haft auga með því hvort innlend og erlend fyrirtæki fari að íslenskum lögum og reglum.

 

birgirthh's picture
Birgir Þór Harðarson
Fréttastofa RÚV