Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Skattrannsóknarstjóri hefur fengið gögn frá Namibíu

13.11.2019 - 12:01
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Bryndís Kristjánsdóttir, skattrannsóknarstjóri segir að embættinu hafi nýlega borist gögn frá yfirvöldum í Namibíu. Hún er bundin trúnaði um hvern eða hvað þau varða. Leiða má líkur að því að gögnin tengist Samherjamálinu.

Gögn sem lekið var til WikiLeaks og Kveikur og Stundin hafa rannsakað sýna að Samherji greiddi háttsettum stjórnmála- og embættismönnum í Namibíu hundruð milljóna króna síðustu ár til að komast yfir eftirsóttan fiskveiðikvóta. Samherji hefur komist yfir allt að 100 þúsund tonna kvóta í Namibíu árlega síðustu ár. Það lætur nærri að vera þriðjungur alls kvóta í landinu. 

Málið er komið inn á borð Héraðssaksóknara. Ólafur Þór Hauksson, héraðssaksóknari sagði í samtali við fréttastofu að það sem kom fram í þætti Kveiks verði tekið til rækilegrar skoðunar, auk annarra gagna sem embættið hefur aflað sér. Uppljóstrarinn og fyrrverandi starfsmaður útgerðarinnar, Jóhannes Stefánsson, hefur gefið saksóknara skýrslu um aðkomu sína að Samherja.