Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Skattaundanskot til Lúxemborgar komi ekki á óvart

23.11.2019 - 12:30
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Skattrannsóknarstjóri telur að opinberar tölur sem liggja fyrir um skattaundanskot hér á landi séu gamlar. Samkvæmt nýlegri rannsókn fer stór hluti skattaundanskota héðan til Lúxemborgar - sem hún segir ekki koma á óvart.

Í sjónvarpsfréttum í gær sögðum við frá því að 47 milljarðar króna séu árlega fluttir frá Íslandi til skattaskjóla, samkvæmt nýrri alþjóðlegri rannsókn. Tapaðar skatttekjur vegna þess eru um 9 og hálfur milljarður króna. 15 prósent af ætluðum skatti fari á hagnað fyrirtækja til skattaskjóla árlega.

Bryndís Kristjánsdóttir, skattrannsóknarstjóri segir erfitt að leggja mat á þessar upplýsingar. Síðast hafi fjármálaráðuneytið kannað skattaundanskot árið 2017. „Þær tölur sem liggja fyrir um það eru svolítið gamlar. Þær auðvitað eru alltaf byggðar á þeim forsendum sem eru gefnar hverju sinni við þá útreikninga. Þess vegna vil ég fara varlega að leggja mat á þetta fyrr en maður áttar sig betur á því hvernig þetta er hugsað.“

Fjármálaráðherra sagði í sumar í skriflegu svari á Alþingi að tímabært væri að gera nýja úttekt á umfangi skattaundanskota hérlendis. Starfshópi sem var falið að greina umfang og áhrif skattaundanskota og skattsvika árið 2017 áætlaði að skattsvik á tímabilinu 2010-2013 hefðu numið 80 milljörðum króna á ári.

Samkvæmt alþjóðlegu rannsókninni fer stærstur hluti hagnaðarins til Lúxemborgar þar sem skattprósentan er 3 prósent.  „Þessi svæði sem þarna eru nefnd. Sérstaklega Lúxemborg það svæði sem að við þekkjum og hefur verið áberandi alveg frá hruni og fyrir hrun. Það kemur ekkert á óvart,“ segir Bryndís. „Lúxembúrg er þekkt svæði fyrir svona fjármagnsflutninga. Og hefur verið liður í þeirri leið, bæði stórfyrirtækja og annarra að skipuleggja eða eiga við sín skattamál.“

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV